«

»

Molar um málfar og miðla 306

 Þingmaður Sjálfstæðisflokks líst illa á stöðuna, sagði  fréttaþulur í upphafi fréttatíma  RÚV klukkan  18 00 (16.05.2010). Nokkuð skortir á máltilfinningu þeirra,sem  svo taka til orða.

Það væri til bóta í  dagskrárkynningu Ríkissjónvarpsins í blöðum, að þess væri getið hvort ráðgert er  að endursýna þætti, eða þáttaraðir, og þá hvenær.

Aldrei kann Molaskrifari  við það, þegar talað er um að fyrirtæki hafi farið á höfuðið  eða hafi verið sett á höfuðið.  Molaskrifara finnst þetta málvöndun á  misskilningi byggð. Það hefur alltaf heitið að fara á hausinn, eða að setja á hausinn, þegar fyrirtæki fer í þrot eða er sett í þrot.

Merkilegir þykja Molaskrifara bloggarar , sem  endurskrifa fréttir úr mbl.is og  birta á blog.is.Það vefst fyrir honum hver tilgangurinn sé. Kannski bara vekja athygli á sjálfum sér. Þetta er auðvitað ein af leiðunum til þess.

 Fínn morgunþáttur Sirrýar á Rás tvö (16.05.2010). Inn á milli  leynist vissulega ýmislegt bitastætt í  dagskrá Rásar tvö.

 Hversvegna flytur  Ríkissjónvarpið hvað eftir annað auglýsingu  sem í er augljós málvilla?Húseigendur: Hugsaðu til  framtíðar!  Engin gagnrýni. Engin sía. Enginn prófarkalestur. Enginn metnaður.

Úr mbl.is (16.05.2010): Elin Nordegren, eiginkona Tigers Woods, hefur ráðið einn af kunnustu skilnaðarlögfræðinga í Lundúnum…..  Hér ætti annaðhvort að standa: Elin Nordegren, eiginkona Tigers Woods, hefur ráðið einn kunnasta skilnaðarlögfræðing í Lundúnum… Eða:  Elin Nordegren, eiginkona Tigers Woods, hefur ráðið einn af kunnustu skilnaðarlögfræðingum Lundúna…

…hafi  Vinstri grænir mistekist.., sagði  fréttaþulur  RÚV sjónvarps (16.05.2010). Hefði átt að vera: …hafi Vinstri grænum mistekist.. Í sama fréttatíma var sagt frá vélmenni,sem hefði framkvæmt hjónavígslu í Japan. Þá  tók  fréttamaður svo til orða: … Hannaði og byggði sérstakt vélmenni fyrir  tækifærið…  Þetta finnst  Molaskrifara   slæmt orðalag. Betra hefði verið að segja: Hannaði  og byggði sérstakt vélmenni  til að annast hjónavígsluna. Það er svo annað mál hvort vélmenn geta vígt.

 Úr fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 18 00 (16.05.2010): … þótt  bændur þurfi mögulega að yfirgefa þær (jarðir sínar) tímabundið.  Ekki mögulega , heldur  ef til vill.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>