«

»

Molar um málfar og miðla 325

Úr mbl.is (10.09.2010):  Jón Gunnarsson, Bjarni Benediktsson og Unnur Brá Konráðsdóttir kváðu sér einnig hljóðs .. Hér er ruglað saman sögnunum að kveða og kveðja. Að kveðja sér hljóðs  er að biðja um orðið eða taka til máls. Kveðja, kvaddi, kvöddum kvatt. Þau kvöddu sér  hljóðs. Ræður þeirra kváðu  (ku) hafa verið arfaslakar,  voru sagðar hafa verið arfaslakar. Kveða, kvað,kváðum, kveðið.

 Viðvaningar sinna nú nú fréttaskrifum í vaxandi á mbl. is  eins og þetta setningarbrot  (10.06.2010) sýnir: …en mikill mannfjöldi var staddur á svæðinu á vegum skemmtiferðaskipsins MSC Poesia. Molaskrifari  hefði haldið  að fólkið hefði verið farþegar á skipinu en  ekki á vegum þess.

Landlæknisembættið hlýtur að grípa til viðeigandi ráðstafana eftir  viðtal við lækni á Stöð tvö (10.06.2010) um alvarlegar afleiðingar svokallaðrar detox-meðferðar hjá Jónínu Benediktsdóttur á Miðnesheiði. Fram kom í viðtalinu, að fólk hefur  þurft að leita til bráðamóttöku  Landspítalans eftir að  því var sagt í detox-meðferð hjá Jónínu að hætta að taka lyf, sem læknar höfðu ráðlagt gegn verkjum og háum blóðþrýstingi. Ekki er vitað til þess ,að nokkur læknir leggi nafn sitt  við  þessar skottulækningar á Miðnesheiðinni. Ef heldur, sem horfir, er það ekki spurning um hvort, heldur hvenær, það kann að leiða  til dauðsfalls, að fólki er ráðlagt að hætta  lyfjanotkun, sem er að læknisráði. Yfirvöld  eiga að  stöðva þessa starfsemi áður en hún verður einhverjum að fjörtjóni

Í fréttum Stöðvar tvö (09.06.2010) var sagt  frá tveimur telpum ,sem seldu límonaði og  góðgæti  til  styrktar  Kattholti. Fallega hugsað og gert. Fréttamaður sagði. …. hafa  staðið hér tímunum  saman án þess að una sér hvíldar.  Eitt er að una einhverju  eða una  við eitthvað, sætta sig við eitthvað, –    annað er að  unna sér  ekki hvíldar, – gefa sér ekki tóm til að hvílast.

Í íþróttafréttum Stöðvar tvö (10.06.2010) var sagt frá  innbroti   í hótelherbergi í Suður Afríku. Stolið var  tvö þúsund dollurum, en íþróttafréttamaður Stöðvar tvö tók  svo til orða, að  þjófurinn hefði numið brott  tvö þúsund  dollara!  Auðvitað skildist þetta og reiðareksmönnum um málnotkun þykir þetta líklega  gott og gilt. Það  finnst Molaskrifara ekki.

Loks vekur Molaskrifari athygli á óvenjulegri grein í Morgunblaðinu bls.19 (10.06.2010). Greinin er eftir Guðrúnu Guðmundsdóttur, móður dauðvona drengs. Greinin er sannarlega þess virði, að hún sé lesin.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>