«

»

Molar um málfar og miðla 326

Það þarf að taka ýmsa í Efstaleitinu í tíma í beygingarfræði tungunnar og það þótt margir  þar séu prýðilega máli farnir. Fréttaþulur í hádegisfréttum (11.06.2010)  las: Þeir prestar ,sem andvígir eru lögunum er þó heimilt að neita að gifta samkynhneigða. Hann hefði auðvitað átt að segja: Þeim prestum, sem…. Það er alltof algengt, að þegar komið er fram í miðja setningu ,muni menn ekki hvaðan lagt var upp. Í sama fréttatíma  heyrði Molaskrifari  ekki betur en íþróttafréttamaður  segði, að tiltekið lið hefði sigrað fjórða leik liðanna… Íþróttafréttamenn verða að hætta að sigra leiki.

   Fyrir nokkru byrjaði eitt olíufélaganna að  auglýsa að það veitti afslátt alveg vinstri, hægri. Veitti sem sagt ríflegan afslátt í allar áttir , – eða þannig.  Takið eftir, lesendur góðir, hvernig þetta  orðalag að gera  eitthvað vinstri, hægri smitar nú út frá sér í allar áttir og heyrist æ oftar af ýmsu tilefni og í ýmsu sambandi.

   Alltaf er skemmtilegt og uppbyggjandi að hlusta  á umsjónarmenn  morgunþáttar Rásar eitt spjalla við Aðalstein Davíðsson fyrrum málafarsráðunaut Ríkisútvarpsins á  föstudagsmorgnum. Vonandi hlusta sem flestir fjölmiðlamenn á  þessa þætti.

      Ein af leiðunum til sparnaðar í Rekstri Ríkisútvarpsins gæti verið að loka fyrir slúðurlúðurinn að vestan, sem  er vikulegur  þáttur morgunútvarps Rásar tvö. Þá þyrftu hlustendur  heldur ekki að heyra af fólki í passportvandræðum og  fólki sem borgar beil. Að ógleymdiri þágufallssýkinni. Í  Efstaleiti er líklega litið á þessi þætti,sem merkilegt framlag til menningar í landinu, og því verður þeim örugglega ekki slátrað.

      Landlæknisembættið hefur gert athugasemdir við skottulækningar Jónínu Benediktsdóttur á Miðnesheiði, kenndar við detox. Þessvegna vill  útvarpsstjóri Útvarps Sögu láta leggja   landlæknisembætti niður (það var stofnað 1760). Embættið er nefnilega  að böggast á Jónínu eins og útvarpsstjórinn orðaði það. Í staðinn vill útvarpsstjórinn   að komi einn maður  í heilbrigðisráðuneytinu, sem geti verið  ráðherranum til ráðunautar, eins og útvarpsstjórinn komst að orði (11.06.2010). Molaskrifari hafði lúmskt  gaman af að hlusta á útvarpsstjóra Sögu kveina yfir því að  ekki væri hægt að panta tvöfaldan vodka  í Noregi. Molaskrifara finnst nú reyndar að bættur sé skaðinn, en henni hefur ekki dottið í hug að panta tvo einfalda?

   Athygli Molaskrifara verið vakin á því, að ein af ástæðunum fyrir hrakandi  málfari á mbl.is geti verið sú , að svo mikið af orku ritstjórnar fari nú í að leggja Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í einelti, að ekki sé  lengur tími til að  sinna  því að vanda málfar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>