«

»

Molar um málfar og miðla 327

Boðað til mótmæla vegna ráðningu bæjarstjóra í Hafnarfirði, segir í fyrirsögn  (visir.is 11.06.2010). Þetta á auðvitað vera ráðningar, ekki ráðningu.

Besti sigraði umræðuna, segir í fyrirsögn á mbl.is (14.06.2010)og  er þar verið fjalla um hlut Besta flokksins í fjölmiðlaumræðu fyrir kosningar.  Málfar íþróttafréttamennsku ræður nú ríkjum á ritstjórninni.

  Ungur og ölvaður karlmaður braust inn í banka í Ellensburg í Washington um síðustu helgi þar sem að honum vantaði stað til að leggja sig.Það er ekki ofsögum sagt af ritsnilld þeirra á dv.is (11.06.2010).

Úr kvöldfréttum Ríkisútvarpsins (11.06.2010).. Eva Joly segist vera tilbúin í  framboð, ef  Græningjaflokkurinn allur  fylki sér að baki hennar. Að áliti Molaskrifara  hefði fréttamaður átt að segja : … að baki henni.

Þar fundust milljónir klámfengina ljósmynda, segir á mbl.is (11.06.2010). Þetta á að vera klámfenginna, ekki klámfengina.

Í Ríkisútvarpinu, Rás tvö (11.06.2010) var sagt: Við ætlum að hafa gaman. Það er orðið  býsna  algengt að heyra þetta orðalag, sem er  hrátt úr ensku: We are going to have fun.  Hreint ekki til fyrirmyndar. Þetta hefur verið nefnt hér áður.

Bjarni Sigtryggsson Molavin sendi eftirfarandi (13.06.2010):

„Fréttastofa RUV þýðir nú í kvöldfréttum enska orðið „hybrid“ sem „híbrid“. Mikil umfjöllun hefur samt verið hér innanlands um tvinn-bíla. Þeir eru flestir knúnir bæði olíu og rafmagni og eru til muna sparneytnari en venjulegri bílar. Þorkell Helgason keypti sér þessháttar bíl fyrir nokkrum árum þegar hann var orkumálastjóri.“
 

Það er þreytandi að heyra í fréttum tönnlast  á lýsingum samkvæmt  lögreglunni, samkvæmt  Guðmundi  eða  samkvæmt  sjónarvottum (RÚV 11.06.2010).  Af hverju ekki: Að sögn lögreglunnar,  að sögn Guðmundar og að sögn  sjónarvotts?

  Það var svolítið gaman að hlusta á dellupistil Jóns Vals Jenssonar í  Útvarpi Sögu (11.06.2010) þar sem hann talaði um það sem hann kallaði dellufrumvvörp á Alþingi. Hann réðist harkalega að hugmyndum  um   sameiningu  ráðuneyta (landbúnaðar-, sjávarútvegs- og iðnaðarráðuneytis) í hagræðingar- og sparnaðarskyni , meðal annars til að fækka ráðherrum og og fækka í yfirstjórn. Var á honum að heyra  að landið mundi fara á hliðina  ef úr yrði, að ekki sé  talað um ef Jón Bjarnason léti af ráðherraembætti.  Í pistlinum kristallaðist  gamaldags afturhald,sem enn virðist lifa góðu lífi hjá sumum í VG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>