«

»

Molar um málfar og miðla 332

Sarkozy minntist heróps de Gaulle, sagði í fyrirsögn  á mbl. is (18.06.2010). Heróp er óp stríðsmanna fyrir orrustu, segir í  Íslenskri orðabók. Herhvöt er hinsvegar eggjun eða hvatning til bardaga. Það var einmitt það sem  de Gaulle  gerði er hann  ávarpaði landa sína  frá London fyrir 70 árum; hann hvatti  þá til að  veita Þjóðverjum mótspyrnu.  Heróp er eitt. Herhvöt  er annað.

 Ótrúlegt að Hæstiréttur klofnar,segir í millifyrirsögn á visir.is (18.06.2010).  Þessi setning  er ekki í lagi eins og  flestir  sjálfsagt skynja.  Þarna ætti að segja; Ótrúlegt að  Hæstiréttur  skuli klofna, eða: Ótrúlegt að Hæstiréttur skuli hafa klofnað.

Julia Roberts verður  fyrir barðinu, skrifar einn af fastapennum pressan. is. Svona  er ekki hægt að taka til orða. Það er hægt að verða fyrir barðinu á einhverju, en  barð þýðir þá stefni skips.  Julia Roberts gæti hafa orðið fyrir barðinu á óheiðarlegum mönnum.

Sumar auglýsingar Símans eru þessu stórfyrirtæki til skammar. Hversvegna þurfa  fyrirtæki á borð  við Símann  að leggja sig í framkróka um að spilla íslenskri tungu ?   Fyrir nokkru  hóf Síminn auglýsingaherferð til að afla  nýrra viðskiptavina.  Herferðin  er farin undir   slagorðinu Ring. Ring er  ekki íslenska. Ring  er enska. Hrein og ómenguð. Hversvegna  þarf Síminn að tala við okkur á ensku?  Í nýjustu  heilsíðuauglýsingu    Símans í þessar herferð segir: Ekki vera  djöfulsins sökker ! Molaskrifari kann  ekki við að vera ávarpaður  með  bölvi og  ragni í svona  auglýsingu. Það er   ókurteisi.  Orðið sökker er   íslenskuð   enskusletta.  Þetta er íslensk afbökun á enska orðinu  sucker sem er  frekar kæruleysislegt  eða óformlegt á  ensku , – notað um þann sem  er auðblekktur  eða lætur hafa sig að ginningarfífli. Hafi Síminn skömm fyrir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>