«

»

Molar um málfar og miðla 331

 Hafin er herferð gegn ölvunarakstri og er það vel. Fjölmiðlar herma  að IOGT samtökin standi fyrir herferðinni. IOGT er ensk skammstöfun (International  Order of Good Templars) heitis alþjóðlegrar bindindishreyfingar, sem hafði mikil áhrif á Íslandi á  sínum tíma  en er nú að mestu horfin úr sviðsljósi samtímans líkt og  ungmennafélögin.  Þessi hreyfing   heitir á íslensku   Góðtemplarareglan og félagsdeildir hennar  hétu stúkur. Vart var  sú byggð á Íslandi að þar  væri ekki starfandi barnastúka og  stúka fullorðinna. Þar var unnið merkilegt starf. Molaskrifari komst svo langt á  sínum tíma að verða fyrrverandi æðstitemplar í barnastúkunni Æskunni númer eitt. Aldrei varð hann þó æðstitemplar.

  Líklega þykir  forsvarsmönnum Góðtemplarareglunnar  fínna að slá um sig með skammstöfuninni IOGT heldur en  nota  hið gamla  góða orð  Góðtemplarareglan. Það er hallærislegt snobb að forðast  hið gamla, góða orð, Góðtemplararegla.

Hypjist nú öll út að fagna (17.06.2010). Svo segir í fyrirsögn í Morgunblaðinu.   Molaskrifari hefur ekki vanist því  að sögnin  að  hypja sé  notuð með  þessum hætti. Henni  fylgir í  huga  skrifara  alltaf að hypja sig. Eftir að hafa orðið sér  til skammar hypjaði hann sig  burt.  Hypjaðu þig burt, – snáfaðu burt.  Svo er líka  talað að hypja upp um sig  brækurnar, – hysja upp um sig  buxurnar.  Beygingarmyndin hypjast fyrirfinnst  ekki á vef Árnastofnunar, beygingarlýsingu íslensks nútímamáls.

 Heldur var það rýrt í roðinu, sem Ríkissjónvarpið bauð þjóðinni  upp á að kveldi  þjóðhátíðardagsins. Að loknum  endurflutningi á  ræðu forsætisráðherra frá því um morguninn var endursýnd íslensk kvikmynd, sem tæplega telst til stórverka, þá  amerísk þáttaröð og svo endursýndur þáttur úr norskum myndaflokki. Að ógleymdum fótbolta og aftur  fótbolta. Norska  sjónvarpið gerði betur  við sitt fólk að kveldi þjóðhátíðardags okkar. Það sýndi Mýrina  þeirrar  Baltasar og Arnaldar, sem er prýðilega gerð spennumynd. Það er ekki  við góðu að búast fyrir þjóðina úr Efstaleiti þegar  svo stór hluti  dagskrárfjár fer í Júróvisjón og boltaleiki.  Það þarf að taka dagskrárstjórnina  úr höndum íþróttadeildar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>