«

»

Molar um málfar og miðla 330

Í tíufréttum Ríkisútvarpsins (16.06.2010)sagði fréttaþulur okkur  frá  knattspyrnukappleik milli  Suður Kóreu og Úrúgvæ. Þegar  fram í fréttina kom var leikurinn hinsvegar milli Suður Afríku og Úrúgvæ ( sem var hið rétta). Enn  eitt  dæmið um þann vonda sið  sumra  fréttamanna  að hlusta ekki á  það sem þeir  lesa, heldur  lesa vélrænt, – eins og vélmenni.

 Þyrla og varðskip leita að báti á Reykjanesinu,segir í fyrirsögn á visir.is (15.06.2010). Heldur þykir Molaskrifara ósennilegt, að bátsins hafi verið leitað á Reykjanesi enda lítið um skipaferðir á Reykjanesskaga. Líklegra  er að bátsins hafi verið leitað  við Reykjanes.  Einkennileg villa, að ekki sé  meira sagt.

Af mbl.is (16.06.2010):  Íslandsklukkan hlaut fjögur Grímuverðlaun. Orðið verðlaun er fleirtöluorð. Þessvegna hefði   átt að segja að  Íslandsklukkan hafi hlotið fern Grímuverðlaun.

Það var næsta einkennileg myndbirting á mbl.is (17.06.2010) að birta mynd af lögreglumönnum , sem standa heiðursvörð, með frétt af tveimur umferðarslysum.

 Fréttamaður Ríkissjónvarps talaði í tíu fréttum (15.06.2010) um að kostnaður við tillögur  Besta flokksins  næmi fleiri milljörðum. Fleiri en hvað? Hann hefði betur sagt: ..  mörgum milljörðum.  Ef  taldar eru með  tillögur  Besta flokksins og hins nýja meirihluta í Reykjavík um að leggja flugvöllinn í Vatnsmýrinni niður og hefja lestarsamgöngur   úr Vatnsmýri suður á Miðnesheiði er um að ræða  ræða fjárfestingar sem  nema  tugum milljarða, – og eru þar að auki tómt rugl. Lestarsamgöngur  til Keflavíkurflugvallar mundu kalla á  gífurlega ríkisstyrki. Þær  bæru sig aldrei, jafnvel þótt allur fjárfestingarkostnaður væri afskrifaður á fyrsta degi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>