«

»

Molar um málfar og miðla 467

Réðust á par af tilefnislausu , segir í fyrirsögn á dv.is (21.11.2010). Hér  hefði átt að standa: Réðust  á par að tilefnislausu.

  Úr mbl.is  (22.11.2010): Júlíana Grétarsdóttir hafnaði í 19. sæti og Heiðbjört Arney Höskuldsdóttir í 26. sæti af 38 keppendum í novice-flokki á Opna Varsjármótinu í listhlaupi á skautum um helgina.  Orðið  novice er  enska og þýðir  nýliði. Þessvegna  hefði átt að segja, að stúlkurnar hefðu keppt í nýliðaflokki

  Glöggur lesandi  benti Molaskrifara á  frétt í Fréttatímanum (19.-21.11.2010), en þar stendur: Verslunin hyggst  bjóða bókina á hálfvirði frá og með  deginum í dag og  með skilarétti þar til birgðir endast. Eitthvað er athugavert við hugsunina í þessu.  Hér  hefði  setningunni  annaðhvort átt að ljúka á orðunum  meðan   birgðir endast,  eða þar til birgðir þrýtur.

   Á fundi VG  var  hart deilt um tvær  tillögur um sama mál (20.11.2010). Sú tillaga vann,  sagði fréttamaður  Ríkissjónvarpsins um þá tillögu er hlaut  meiri stuðning.  Molaskrifari   er ekki  sáttur  við að  nota  sögnina  að vinna  um  tillögu. betra  hefði verið: Sú tillaga var samþykkt.

   Það þurfti að sparka nokkuð oft og  fast í okkar  gamla   Ríkisútvarp  svo  ráðamenn þar áttuðu sig á því að þeir  gátu ekki vikist undan því að kynna  frambjóðendur,  sem eru í kjöri  til  Stjórnlagaþings.

 Úr visir .is  (21.11.2010): Hann vafði plastpoka um fætur sínar og límdi þá fasta til að skilja ekki eftir skóför. Hann setti á sig latexhanska og lambhúshettu og klæddi sig í stóra úlpu og gekk svo síðustu metrana að húsi Hannesar með hnífi í hendi.  Hugmyndina að því að undirbúa sig á þennan hátt segist Gunnar hafa fengið úr bíómyndum og sjónvarpsþáttum á borð við CSI. Í blaðagreinum kallaði Helgi Hálfdanarson  Sjónvarpið oft   Afbrotaskóla ríkisins.

   Merkilegt er hve  þáttastjórnendur í fjölmiðlum eru  glúrnir að hafa uppi  allskonar sérfræðingum sem spá því með  alvörusvip og miklum þunga, að allt  sé á heljarþröm. Lífeyrissjóðakerfið sé að hrynja , ef  ekki hrunið,  heilbrigðiskerfið sé að  hrynja,eða hrunið   og  svo framvegis. Sem  betur  fer hafa allir  heimsendaspámenn fram til þessa haft á  röngu að  standa. En  fjölmiðlamenn hafa of  ríka tilheigingu  til að kokgleypa  svona  stóryrði gagnrýnilaust. Um það eru alltof mörg  dæmi að undanförnu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>