«

»

Molar um málfar og miðla 470

Í frétt Morgunblaðsins (24.11.2010) um framkvæmdir í grennd við náttúruperlu í Noregi segir: „Ferðamenn leggi bílum sínum við veitingastaðinn, borgi sem svarar 1200 kr fyrir bílastæðið og og þaðan liggi gönguleiðir um fjallið og næsta nágrenni“. Svo ætla talsmenn ferðaþjónustunnar á Íslandi að ganga af göflunum ef rætt er um smávægilega gjaldtöku við íslenskar náttúruperlur, sem nú eru margar hverjar í eyðileggingarhættu vegna mikillar umferðar og áníðslu. Við getum margt lært af Norðmönnum um ferðamennsku.

   Talsmanni  Arion banka tókst að  segja að minnsta kosti þrisvar sinnum: Við erum að sjá ,  við erum ekki að sjá,þegar rætt  var um verðbólguhorfur í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins ((25.11.2010)

  Gaman er að geta fylgst með fréttum  japanska NHK World News   og  hins  kínverska CCTV 9  af  atburðum á Kóreuskaga. Kínverjar taka ekki mikið upp í sig  og  stíga varlega til jarðar. Hafa til dæmis ekkert sagt um hvor   hleypti  af fyrsta skotinu. Japanir ganga aðeins lengra. Þeir  segja framferðir Norður Kóreru  hættulegt  óafsakanlegt. 

  Nýlega var þeirri spurningu varpað fram í Útvarpi Sögu hvort íslenskir  fjölmiðlar  almennt  væru frjálsir, – þ.e. lausir  við áhrif eigenda sinna. Þetta  kalla  stjórnendur  stöðvarinnar  skoðanakönnun, sem það auðvitað er ekki, – langur vegur frá.   453 svöruðu á vefsíðu stöðvarinnar. 80.09% töldu að fjölmiðlar  væru ekki frjálsir. 18.36%  töldu  fjölmiðla frjálsa,  1.55% voru hlutlausir.  Ef kalla á  Útvarp Sögu  fjölmiðil, þá  er líklega  leit að miðli , sem  bergmálar skoðanir   eigenda og stjórnenda sinna jafn purkunarlaust og gert er í Útvarpi Sögu.  Það var  hinsvegar meiriháttar skemmtiatriði að  hlusta á  stjórnarformann Útvarps  Sögu  skýra  frá úrslitum þessa samkvæmisleiks stöðvarinnar. Molaskrifari þorir ekki  freista þess að búa til tengil á  dáraskapinn, enda yrði hann líklega umsvifalaust  kærður  fyrir  óheimila notkun á útvarpsefni úr Útvarpi Sögu. Þeir sem hafa  áhuga á  geta sjálfsagt fundið  þetta á netinu   en þetta var óborganlegt í alla staði !

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>