«

»

Molar um málfar og miðla 471

Kjörstaðir opna klukkan tíu, sagði fréttamaður Ríkisútvarpsins í hádegisfréttum (26.11.2010). Er mönnum alveg  fyrirmunað að nota  sögnina að opna rétt ?  Kjörstaðir opna  hvorki eitt  né neitt. Kjörstaðir verða  opnaðir  klukkan tíu. Ótrúlegt. Hvað segir málfarsráðunautur? Er hann ekki örugglega enn við  störf?

  Var leitað til íslenskra dómara með aðstoð, sagði íþróttafréttamaður Ríkisútvarpsins í sexfréttum (25.11.2010) Hér hefði  fréttamaður átt að  segja að leitað  hefði  verið til íslenskra dómara um aðstoð.

Líklega var Molaskrifari ekki einn um að verða hissa á að heyra ráðherra lýsa vonbrigðum með „að Hæstiréttur skuli hafa metið meira bókstafsskilning á eignarréttarvernd kröfuhafa heldur en vernd einkalífs og heimilis eignalauss fólks“. Á ekki Hæstiréttur að dæma eftir bókstaf laganna ? Ef bókstafur laganna er rangur að mati ráðherra og þingmanna eiga þeir að breyta lögunum ,en ekki skamma Hæstarétt.

   Einfaldar lausnir við erfiðum vandamálum var sagt í sjónvarpsauglýsingu (25.11.2010) í Ríkissjónvarpinu. Molaskrifari hallast að því að  rétt sé að tala um lausnir  á  vandamálum, ekki við vandamálum.

  Af mbl.is (266.11.2010): Lögregla á eftirliti veitti ferðum þeirra athygli …  Hér hefði verið betra að segja: Lögreglumenn í eftirlitsferð veittu ferðum þeirra athygli, –  verið var að segja frá innbrotum í sumarhús í Grímsnesi.

 Það var hárrétt, sem Eiríkur Tómasson prófessor  sagði í Ríkissjónvarpinu í k völd: Íslensk  stjórnmál eru frumstæð.  Við sáum þetta rækilega í fréttatímum beggja sjónvarpsstöðvanna í kvöld (18.11.2010)

Merkilegt fréttamat hjá Ríkissjónvarpinu okkar, að frétt um að Svarthöfðabúningur úr kvikmynd hafi ekki selst á uppboði í Lundúnum, skuli hafa ratað inn í aðalfréttatíma kvöldsins. Þetta var einhver mesta „ekki frétt“, sem Molaskrifari hefur lengi séð. Ekki margt fagmannlegt við svona fréttamat. Þá má auðvitað líka um það deila hvaða erindi óléttufréttir eiga í fréttatíma Ríkisútvarpsins. Katrínu Jakobsdóttur er hinsvegar óskað til hamingju með að eiga von á sínu þriðja barni.

Glöggur lesandi sendi eftirfarandi athugasemd (25.11.2010): „Verð að vekja athygli á þessari setningu úr bloggi Þorbjargar Marínósdóttur (Tobbu) á DV.is:„Þessir ungu strákar uldu miklum usla á Akureyri á síðasta ári með skemmdaverkum sinum.“Oft hefur maður séð sögnina að valda vefjast fyrir fólki, en þetta held ég að toppi allt saman.“ Þetta er eiginlega alveg sérstakt afrek !

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>