«

»

Molar um málfar og miðla 472

Eftirfarandi setningarbrot úr dv.is (26.11.2010) er lýsandi dæmi um skort á máltilfinningu: Kostnaðurinn nemur um tvær milljónir króna …  Hér  ætti að standa: Kostnaðurinn nemur um tveimur milljónum króna. 

 Annað dæmi um skort  á máltilfinningu úr hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (26.11.2010): Sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum vegna  álvers við Bakka á  Húsavík var skilað í gær….  Mat var ekki skilað, heldur var mati skilað.  Er það  í rauninni svo að það les enginn yfir  það sem álfarnir  skrifa áður en því   er hellt yfir okkur hlustendur ?

 Það ætti að vera vinnuregla í Ríkisútvarpinu  að  segja þannig  frá ártölum, að  allt ártalið sé  nefnt , ekki bara tveir síðustu tölustafirnir.  Í útvarpsþætti (26.11.2010) var talað um  smáskífu, sem komið hefði út árið  sjötíu og  sex ! Glöggir  hlustendur hafa þó  líklega áttað sig á því ,að hljómplötuútgáfa var  ekki hafin árið  sjötíu og sex og  ekki einu sinni átjánhundruð sjötíu og  sex. Ríkisútvarpið á að forðast svona latmæli.

  Lýsingarorðið vinsæll stigbreytist,  vinsæll, vinsælli, vinsælastur. Miðstigið er ekki vinsælari eins og þáttastjórnandi í   Útvarpi Sögu sagði (26.11.2010)

Það er bara  það sem þeir kalla  discrimination, sagði  stjórnarformaður Útvarps Sögu (26.11.2010). Er það ekki  rétt munað að útvarpsstjóri   þessarar stöðvar hellti sér yfir konu,sem vildi  fá að tala  ensku, er hún hringdi til stöðvarinnar ?  Orðið  discrimination er nefnilega enska. Útvarpsstjórinn ætti  að byrja  á því að tala  við stjórnarformann sinn. Hæg eru heimatökin. Það er góð regla að  byrja  tiltektina heima hjá sér.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>