«

»

Molar um málfar og miðla 473

Auglýsingastofur, stórfyrirtæki og nokkur veitingahús hafa að undanförnu lagst á  eitt  að troða  slettum inn í málið. Þessar slettur  eru  tax-free dagar (Þegar veittur er afsláttur ,sem nemur virðisaukaskattsprósentunni), outlet (einskonar verksmiðjuútsala) og  bruns eða bröns(veglegur  hádegisverður, oftast á laugardegi eða  sunnudegi, blanda úr ensku orðunum breakfast og lunch). Þessir aðilar eru að vinna  óþurftarverk með skipulagðri málmengun.

 Mjög góður Tungutakspistill Baldurs Sigurðssonar, Orðfæðarstefnan, í Sunnudagsmogga.

  Að lausn væri að vænta, – sagði fréttamaður  Ríkisútvarpsins í sexfréttum (26.11.2010). Hefði átt að segja að lausnar væri að vænta. Sami fréttamaður sagði:  .. til handa  skuldavanda heimilanna. Ekki  gott orðalag.

 Úr mbl.is (27.11.2010): Ríkasti maður Indlands, milljarðamæringurinn Mukesh Ambani, hélt nýverið innflutningsveislu á nýbyggðu heimili sínu, sem er talið vera það stærsta – og dýrasta – í heimi.  Það er ekki íslensk málvenja að tala um að byggja heimili. Fólk  byggir hús, en stofnar heimili. Innflutningsveisla. Það var og.

  Nokkrum þraut þolinmæði,sagði  fréttamaður Ríkissjónvarps (26.11.2010). Molaskrifari er á því að betra hefði verið: Nokkra þraut þolinmæði…  verið var að  segja  frá biðröðum við utankjörfundaratkvæðagreiðslu í Reykjavík.

Morgunblaðið er nú í brúarvinnu. Það er að byggja  brýr  til VG.  Blaðið kemur Jóni Bjarnasyni ráðherra hraustlega til varnar í leiðara vegna ómaklegra   persónulegra árása. Þingmaður VG  Atli Gíslason fær  svo  drottningarplássið í leiðaraopnunni, – miðjuna úr hægri síðunni. Undir hvað?  Undir  grein  sem  harkaleg árás á  ESB. Ja, hérna. 

Skondin er auglýsing  veitingastaðarins Thai A á Akranesi í  Útvarpi Sögu um taílenskt  jólaborð!. 0.7% íbúa Thailands  eru kristinnar trúar og halda væntanlega heilög jól .  Rúmlega 94% eru Búddistar og  5% Múslímar. Þeir vita varla hvað jól eru. Þetta minnir á þegar veitingastaður auglýsti kínverskt  jólaborð !  Þeir sem þekktu kokkinn höfðu vit á að borða heldur heima.

  Ríkisútvarpið þrjóskast við að kalla Hringekjuna á laugardagskvöldum  skemmtiþátt.  Það er hún ekki.

  Eftir fréttum að dæma er meginhlutverk sumra upplýsingafulltrúa í stjórnarráðinu að láta fjölmiðla alls ekki ná til sín. Það eru auðvitað upplýsingar líka.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>