«

»

Molar um málfar og miðla 474

 Í  fréttum  Ríkissjónvarpsins á kjördag (27.11.2010) var rætt við  formann landskjörstjórnar, sem fréttamaður kallaði yfirmann landskjörstjórnar.  Hvernig  hefur þetta verið  svona  heilt yfi spurði   fréttamaður  formanninn. Heilt yfir? Það var líka einkar ófaglegt að ætlast  til þess að formaður landskjörstjórnar lýsti  vonbrigðum með  dræma kosningaþátttöku. Fréttamaður  sem segir:  Dáldil traffík og misjafnt er hvenær kjörstöðum lokar , þarf  meiri þjálfun áður hann er settur á skjáinn og   sendur inn í stofu til okkar. 

 Þeir sem ætla að hlusta á fréttir í Ríkisútvarpinu klukkan 17 00 á laugardögum   grípa  í tómt.  Fréttastofu  ríkisins  þóknast ekki að hafa  fréttir þá  eins og  virka daga. Þá  er  bara að hlusta á  Bylgjuna. Þar eru fimmfréttir á laugardögum.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á að fækka um 96 starfsmenn sem nemur 69 starfsmönnum á  St. Jósefsspítala. Skilur einhver þetta?  Tilvitnunin  er úr grein eftir  þingmann Framsóknarflokksins í Fréttablaðinu  27. 11.2010. Hér er  svo setning úr  dv.is (27.11.2010): „Kristkirkja á Íslandi ætlar ekki lengur að koma illa fram við hvort annað,“ sagði Símon Geir Geirsson, úr Fíladelfíukirkjunni… Aftur er spurt: Skilur einhver þetta?

 Heimildamyndin Aldrei aftur, sem  Ríkissjónvarpið sýndi á sunnudagskvöld  (28.11.2010) var of löng. Þar var illa farið með áhugavert  hráefni. Samhengi var stundum ábótavant, en ágætum tilþrifum brá  fyrir,  til dæmis viðtölum  við gömlu konurnar á Guernsey, öllu heldur frásögnum þeirra. Það var áhrifamikið. Myndina hefði mátt stytta um allt að því helming eða gera   tvær  styttri myndir með betri klippingu og leikstjórn. Lokaatriðið á Þingvöllum  hefur ekki verið ódýrt í uppsetningu  og var meira en   hallærislegt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>