Fréttapistlar Sveins Helgasonar frá Bandaríkjunum eru með besta efni í fréttatímum Ríkisútvarpsins.
Eftir ágæta umfjöllun um efnahagskreppuna á Írlandi, stillti fréttamaður Ríkissjónvarpsins sér upp við barborð í Dyflinni (01.12.2010) og skálaði við hlustendur. Hvert var tilefnið.? Átti þetta að vera fyndið?
Í fréttatíma BBC sjónvarpsins á hádegi á fimmtudag (02.12.2010) var fyrstu þrettán mínúturnar einvörðungu velt vöngum um væntanlega ákvörðum um það hvort heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu muni fara fram í Bretlandi árið 2018. Það var ekki fyrr en að þrettán mínútum liðnum að byrjað var að segja frá því ,að sjö þúsund skólar, margir flugvellir og vegir væru lokaðir vegna fannfergis. Samgöngur í landinu hálflamaðar. Svona raða Bretar fréttunum.
…hefur framlengt samningi sínum, sagði íþróttafréttamaður Ríkisútvarpsins (01.12.2010). Að mati Molaskrifara er það málvenja að tala um framlengja samning, framlengja víxil (lánaform sem nú heyrir víst sögunni til). Hann hefur vanist því að sögnin stýri þolfalli, ekki þágufalli.
Molaskrifari hlustaði á fréttir Hauks Hólm (01.12.2010) klukkan 14 00 í Útvarpi Sögu. Fréttir Hauks eru yfirleitt ágætar,og hann vel máli farinn, en eins manns fréttastofa hlýtur að styðjast mjög við aðra fjölmiðla. Það sakaði ekki geta þessa svona stundum. Annars kom það mest á óvart, að þegar fréttum lauk var Molaskrifara sagt að hann væri að hlusta á morgunútvarp, Útvarps Sögu! Þá var Molaskrifara nokkru síðar sagt að klukkan væri ellefu mínútur yfir átta. Þá var klukkan farin að ganga þrjú! Það var hinsvegar dapurlegt í þessu „eftirhádegið morgunútvarpi“ að hlusta á fyrrum afbrotamann níða nafngreint fólk og ónafngreint úr Garðinum. Það var hvorki honum né umsjónarmanni til sóma.
Í fréttum Útvarps Sögu (02.12.2010) var talað um þar síðasta mánuð. Molaskrifari minnist þess ekki að hafa heyrt þetta orðalag áður. Nú er desember. Var þá átt við október? Líklega.
Heift Morgunblaðsins gegn ESB brýst nú út í leiðaraárásum á starfsmenn utanríkisráðuneytisins, einkum aðalsamningamann Íslands. Þetta er ómaklegt og óvenjulegt. Það gerist æ oftar að Morgunblaðið gengur fram af fólki í pólitískum skrifum.
Skildu eftir svar