«

»

Molar um málfar og miðla 477

Í Fréttablaðinu (02.12.2010) er einstaklega  ósmekkleg auglýsing  frá Stöð 2, Sport 2. Þar eru auglýstir  50 helgileikir í jólamánuðinum. Átt er  við  knattspyrnuleiki. Í  auglýsingu er mynd af knattspyrnumanni  við steindan glugga og undir stendur:  Hann er upprisinn.  Í  texta  auglýsingarinnar stendur  svo: Stöð 2, Sport 2 boðar yður mikinn fögnuð…  Er hægt að leggjast lægra?   Á þetta að vera fyndið ? Nýtt lágkúrumet.

  Í fréttum Ríkisútvarpsins var  talað um  salmónellu í kjúklingi (02.12.2010). Fremur ólíklegt er að um einn kjúkling hafi verið að ræða. Þetta orðalag var margendurtekið í hádegisfréttum sama dag. Yfirdyralæknir  talaði hinsvegar um salmonellusýkingu í eldishópum. Málvenja er að tala  um að vinna í fiski og  fiskverkun.  Molaskrifari kannast ekki við sömu málvenju  varðandi kjúklinga.

Á fullveldisdaginn  sæmdi Háskóli Íslands  þrjá mæta rithöfunda heiðursdoktorsnafnbót. Það var að verðleikum. Ekki varð  Molaskrifari þess var að  sjónvarpsstöðvunum þætti þetta fréttnæmt. Vera  má þó, að frétt um þennan atburð hafi farið fram hjá honum.

 Glöggur lesandi spurði hvort ekki  væri eitthvað athugavert  við auglýsingu um  morgunþátt Sigga Storms á heimasíðu Útvarps  Sögu. Það er rétt  athugað. Þar stendur: Morgunþáttur með Sigga Storm. Á auðvitað að vera: Morgunþáttur með Sigga Stormi.

 Í seinni fréttum Ríkissjónvarps   stærir stofnunin sig gjarnan  af því að  fréttavefur RÚV á netinu sé uppfærður allan sólarhringinn. Molaskrifari  fór í fréttaleit og  skoðaði fréttavef Ríkisútvarpsins.  Erlendar fréttir á   vef RÚV:  Frétt klukkan 20 22 (02.12.2010). Næsta frétt klukkan 02 23 (03.12.2010). Þar næsta frétt klukkan 05 27 (03.12.2010). Ekki er  útkoman betri , þegar kemur að innlendum fréttum á vefnum. Þar var frétt sett á vefinn klukkan  22 42 (02.12.2010). Næsta frétt var sett inn klukkan 07 46 (03.12.2010)  Þetta kallar  RÚV að vefurinn sé  uppfærður allan  sólarhringinn !   Ekki verður sagt, að þessi fréttaþjónusta  sé upp á marga fiska.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>