Ríkisútvarpið flytur margvíslegt gott efni bæði í útvarpi og sjónvarpi. Þar starfar líka margt prýðilega hæft fólk. Stofnuninni eru hinsvegar um margt mislagðar hendur í dagskrárgerðinni. Þar er gleggsta dæmið ,sem oft hefur verið nefnt hér í Molum að á fimmtudagskvöldum er okkur boðið upp á þrjár amerískar þáttaraðir í beit. Það er auðvitað óboðlegt. Sömuleiðis eru amerískar kvikmyndir, sem oft flokkast undir það sem Molaskrifari kallar dellumyndir, eða rusl, sýndar á besta tíma á laugardagskvöldum eftir svokallaðan skemmtiþátt sem fram tikl þessa hefur verið einstaklega lítið skemmtilegur. Það er líka einstaklega vond dagskrárgerð. Sunnudagskvöldin eru bestu kvöldin í dagskrá vikunnar í Ríkissjónvarpinu.
Laugardaginn 4. desember sýndi Ríkisútvarpið viðskiptavinum sínum óvenjulega fyrirlitningu. Í auglýstri dagskrá átti að endursýna Útsvar frá kvöldinu áður klukkan 17 15. Molaskrifari greip í tómt. Ekkert Útsvar, heldur hlé frá klukkan 17 20 til 17 40, síðdegis á laugardegi ! Hjá Ríkisútvarpinu fengust þær upplýsingar að endursýningu Útsvars hefði verið flýtt og hún hefði verið fyrr um daginn. Íþróttirnar ruddu öðru efni burt eins og venjulega. Það er sök sér að seinka útsendingu efnis , ef það er tilkynnt , – en að flýta útsendingu með þessum hætti sýnir bara botnlaust virðingarleysi fyrir viðskiptavinum stofnunarinnar.
Við búum við nauðungaráskrift að Ríkisútvarpinu. Undan henni verður ekki komist. Viðskiptavinir stofnunarinnar eiga hinsvegar enga aðkomu að stjórn stofnunarinnar. Stjórnmálaflokkarnir skipa trúnaðarmenn sína í stjórn stofnunarinnar. Þeir koma ekki nálægt dagskránni. Þeir fjalla aðeins um rekstur stofnunarinnar, laun æðstu stjórnenda bílamál þeirra og fleira. Ráðamenn ættu að sjá til þess, að viðskiptavinir stofnunarinnar eigi einhverja aðild að því hvernig dagskrá þeim er boðið upp á. Málefni stofnunarinnar heyra víst einkum undir fjármálaráðherra og menntamálaráðherra. Þeir þurfa að taka til í Efstaleitinu.
Úr fréttum Stöðvar tvö (05.12.2010): Mikil eftirvænting ríkti í hjarta ungu kynslóðarinnar…. Molaskrifari er á því, að hér hefði átt að segja: Mikil eftirvænting ríkti í hjörtum ungu kynslóðarinnar…
Hér er sífellt verið að tuða um sömu hlutina. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (03.12.2010) las annars prýðilegur fréttaþulur í fréttayfirliti skýrt og skilmerkilega, án þess að hiksta: Þing Sjómannasambandsins lýkur í dag. Ánnaðhvort hefur þulurinn ekki verið að hlusta á eigin lestur eða hann veit ekki betur. Vonandi á hið fyrra við. Hann hefði átt að segja: Þingi Sjómannssambandsins lýkur í dag. Það er ekki svo að eitthvað ljúki, – heldur lýkur einhverju.
Skildu eftir svar