«

»

Molar um málfar og miðla 482

Upplýsingarnar um  bókhaldsbrellur og bankarán  Glitnismanna,sem  fram komu í  fréttum  Ríkissjónvarps og Kastljósi (08.12.2010) voru svakalegar. Þeir Svavar Halldórsson og Helgi Seljan fá  prik fyrir sinn þátt í framsetningu málsins.  Þarna beraðist  ótrúlegt svindilbrask. Þarna  heyrðum við því lýst hvernig  banki var  rændur. Ekki með kúbeini eins og úrabúðin Leonard  í Kringlunni Heldur af hvítflibbakrimmum með tölvur og excel forritið að vopni ,sem  voru  sérfræðingar í bókhaldsbrellum.

    Sérstakur kapítuli þessa máls  er  hlutur endurskoðunarfyrirtækisins  Price Waterhouse Coopers. Venjulegur  hlustandi  og áhorfandi getur varla dregið aðra ályktun en þá, að þar hafi verið  við  störf  bjánar  eða að menn í fyrirtækinu hafi  vitandi vits og skipulega unnið  með  þeim sem voru að   ræna bankann og  settu  Glitni í þrot. 

   Nú þegar lokið hefur verið tekið af  Pandóruboxinu á  örugglega margt fleira  misjafnt  eftir að koma í ljós.   

 Á forsíðu Fréttablaðsins (08.12.2010) segir frá opnun nýrrar gosdrykkjaverksmiðju. Þar  segir: … þegar Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra vígði verksmiðjuna. Katrín Júlíusdóttir er ekki vígð kona. Þess vegna getur hún ekki vígt eitt eða neitt. Hún gangsetti verksmiðjuna  eftir öllum sólarmerkjum að dæma.

 Einkennilega var tekið til orða í inngangi fréttar um offituvanda á  Stöð tvö (07.12.2010). Þulur  sagði eitthvað á þessa leið:  Um  fimmtungur  íslensku þjóðarinnar þjáist af  alvarlegustu tegund offita.  Ekki ætti að þurfa að taka það fram að orðið offita er ekki til í fleirtölu.

  Ríkissjónvarpið komst á  síður dagblaðanna (08.12.2010. Hversvegna vegna?  Vegna þess að ekki  tekst að ná samningum um  ameríska sápuþáttaröð. Hvað var það sem Jón Baldvin kallaði   Ríkissjónvarpið  á dögunum ?  Ameríska vídeóleigu ? Það minnir mig.  Jón Baldvin hittir oft naglann á höfuðið. Það  sárvantar auðvitað  ameríska sápu í Efstaleitið.  En   gott væri ef sápan væri  notuð  eins og á að  nota sápu. Til að  hreinsa. Til að gera hreint.  Það er borin von.

  Mikið væri annars gaman ef  Ríkissjónvarpið  sýndi okkur þó ekki  væri nema eins og tvisvar í mánuði  upptökur frá tónleikum  þar sem  flutt er sígild  tónlist.  Svo virðist sem sígild tónlist sé á svörtum lista í Efstaleitinu. Það er óskiljanlegt og til skammar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>