«

»

Molar um málfar og miðla 485

Eitthvað munu Molaskrif strjálast um sinn   í aðdraganda jóla.  Jólin eru líklega hætt að ganga í garð. Heldur bresta þau á.  Svo tók sá  ágæti Egill Helgason til  orða í  lok Kiljunnar   (15.12.2010)

 Sagði forsetinn ósatt? Úr Morgunblaðinu (11.12.2010): „Samskiptin voru þó ekki nánari en svo að Jóhanna frétti ekki af niðurstöðu forseta fyrr en hann kynnti hana þjóðinni í fjölmiðlum. Forsetinn sagði hinsvegar á blaðamannafundinum að hann hefði þegar kynnt forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar niðurstöðu sína“.Nú er spurt  sagði Ólafur Ragnar ósatt? Fannst honum nóg að  hringja í Steingrím? Ólafur Ragnar hefur áður farið á svig við sannleikann.  Til dæmis um það sem gerðist  í frægum  hádegisverði í danska sendiráðinu með sendiherrum erlendra  ríkja á Íslandi. Það væri gaman að sjá frásögn staðgengils  bandaríska sendiherrans á Íslandi frá þeirri máltíð. Kannski berst hún frá Wikileaks.  Hafi  fulltrúi  bandaríska sendiráðsins verið á staðnum hefur verið skrifuð frásögn af því sem þarna gerðist.  

    Ríkissjónvarpið sinnir  bókmenntum   ágætlega með vikulegri  Kilju Egils. En hvernig sinnir Ríkissjónvarpið sígildri tónlist?  Það sinnir henni ekki. Það er menningarlegt hneyksli ,hvernig  Ríkissjónvarpið sniðgengur  sígilda tónlist og tónlistarmenn.  Kannski er rétt að beina  vinsamlegri ábendingu til þeirra, sem stjórna og ráða dagskrá   Ríkissjónvarpsins. Horfið nokkrum sinnum á þættina  Hovedscenen í  norska  ríkissjónvarpinu, NRK 2. Þættirnir eru sýndir á sunnudagskvöldum og hefjast venjulega  milli klukkan átta og níu. Það er örugglega  auðveldara að semja við NRK, Nordvision og Eurovision um sígilt  tónlistarefni, en sölumenn amerískrar  sápufroðu,sem  mikill tími  virðist nú fara í,eftir blaðafregnum að  dæma. Einkennilegt ofurkapp, sem  þessi áttræða stofnun okkar leggur á að festa sig  í sessi sem  amerísk vídeóleiga, svo notað sé orðalag Jóns Baldvins.  

   Wikileaks hefur verið mjög til  umræðu  í fjölmiðlum. Þegar  Kristinn Hrafnsson,sem nú er aðal talsmaður  Wikileaks fór fræga  ferð  til Bagdad  fengu hlustendur  Ríkisútvarpsins þrennskonar skýringar á því hver  hefði kostað  för hans og kvikmyndatökumanns um svo langan  veg.   Útvarpsstjóri  sagði eitt, Kristinn Hrafnsson sagði annað. Birgitta Jónsdóttir  alþingismaður kom svo með þriðju útgáfuna.   Hlustendur fengu aldrei að vita  hver þessara þriggja sagði satt. Hvernig væri að  Wikileaks og Kristinn létu sannleikann um þetta leka  til okkar. Það mætti láta upplýsingarnar slæðast með slúðri úr bandaríska sendiráðinu við Laufásveg  ?

   Það er eiginlega fokið í flest skjól, þegar  jafnágætur maður og Björn Bjarnason fv. ráðherra  lætur hafa  sig í langt  viðtali í aðalmálgagni Ólafs Ragnars  Grímssonar, Útvarpi Sögu (09.12.2010)      Annars  var gott hjá  Birni að setja ofan  í við  eigendur og  stjórnendur Sögu  (Arnþrúði Karlsdóttur og Pétur Gunnlaugsson) fyrir það hve niðrandi orðum þau  fara jafnan um  stjórnmálamenn. Tala  sífellt   um stjórnmálastéttina, sem þau svo kalla, með auðheyrðri fyrirlitningu. Fátt varð  um  svör hjá þeim hjúum við ádrepu Björns. Þeim hefur  meðal annars tekist að læða þessu orði á  tungu Þorvaldar Gylfasonar prófessors, sem notar það óspart í niðrandi tali um þá sem sinna stjórnmálum. Hann er þá  líka að tala um  ýmsa sína nánustu, sem verið hafa og eru  í eldlínu stjórnmálanna.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>