Upp til hópa eru þingmenn bara svín bara svín við trog. Mokum öllu þessi ógeði á haugana , skrifar Jónas Kristjánsson (16.12.2010). Gallinn við þessa hugmynd er sá að í staðinn kæmu að öllum líkindum önnur svín og ekki sjálfgefið að þau yrðu betri. Bandaríkjamenn nota orðið pork (svínakjöt) um pólitíska kjósendagreiða, greiðslur eða störf og pork barrel (svínakjötstunna) um kjördæmapotsverkefni.
Margir þeirra sem skrifa fréttir mættu að ósekju þekkja landið sitt betur. Úr mbl. is (14.12.2010.) : Hópurinn kom ekki heim fyrr en undir morgun en hann fór alla leið upp að Rangárvöllum hjá Heklu, Betra hefði verið að segja segja að hópurinn hafi farið austur á Rangárvelli. Líka mun málvenja að tala um að fara upp á Rangárvelli.Að tala um alla leið gefur til að að farið sé mjög langan veg. Setningin hljómar eins og Rangárvellir séu tiltekinn blettur í grennd við Heklu.
Úr fréttatilkynningu frá stjórn Trúfélagsins Krossins ((14.12.2010): Við hörmum þær athugasemdir sem voru látnar falla af hendi meðlims í varastjórn kirkjunnar enda var samþykkt einróma að málið skyldi fara í faglegan farveg. Engar skoðanir okkar, hverjar sem þær kunna að vera, hefðu þar áhrif á.
Það eru ótrúlegt hvað streymir út í ljósvakann frá Útvarpi Sögu. Einn af vildarvinum stöðvarinnar sagði við Pétur Gunnlaugsson stjórnlagaþingsmann (10.12.2010) að fundist hefði haglaskot við dyr Alþingishússins eftir síðustu mótmæli. Hann fullyrti ,að lögreglan hefði verið með haglabyssur tilbúin að skjóta fólkið. Stjórnandi þáttarins steinþagði undir þessu bulli.
Þá var Molaskrifara bent á að fyrr þennan sama dag hefði sami þáttarstjórnandi sagt að ríkisstjórnin ætti við geðræn vandamál að stríða. Er hægt að komast neðar í lágkúru? Líklega ekki. Það er dómgreindarleysi að hafa alvarleg veikindi í flimtingum með þessum hætti
Skildu eftir svar