Ríkisútvarpið á áttræðisafmæli í dag, 20. desember. Það var merkur áfangi í þjóðlífinu, þegar Ríkisútvarpið tók til starfa, en einstaklingar höfðu þá rekið útvarp um nokkurt skeið. Annar merkur áfangi var upphaf sjónvarps 30. september 1966. Margt hefur vel tekist hjá þessari þjóðarstofnun. Í fórum hennar eru ómetanleg verðmæti um sögu og menningu þjóðarinnar. Ríkisútvarpið varðveitir mikilvægan hluta menningararfs þessarar þjóðar.
Á áttatíu ára afmæli Ríkisútvarpsins þarf stofnunin að staldra við. Hún hefur að sumu leyti misst áttir í fjölmiðlahafi samtímans. Hún þarf að ná áttum að nýju. Þessi gamla stofnun þarf að ganga í endurnýjun lífdaganna. Menn eiga að viðurkenna í fullri hreinskilni, að breyting Ríkisútvarpsins í svonefnt opinbert hlutafélag hefur misheppnast. Utanfrá séð, hefur breytingin aðallega leitt til launahækkana hjá æðstu stjórnendum og þess að ekki starfar lengur dagsskrárráð. Menn geta haft ýmsar skoðanir á störfum útvarpsráðs í áranna rás en það gegndi mikilvægu hlutverki. Með breytingum er hér ekki átt við að horfið sé aftur að gamla kerfinu, lítt eða ekki breyttu. Það er víðsfjarri. Það þarf hinsvegar að fara nýjar leiðir og skapa þjóðarsátt um þessa mikilvægu stofnun, sem hefur á að skipa mörgum hæfum starfsmönnum og hægt er virkja betur til góðra verka.
Íslenska þjóðin á betra skilið en margt það sem nú berst um byggðir landsins úr Efstaleitinu. Einkanlega á það við um Ríkissjónvarpið , sem smám saman hefur verið að koðna niður í boðveitu fyrir amerískar þáttaraðir og kappleiki í boltaíþróttum. Íslensk menning og saga hafa þar orðið hornrekur. Íþróttir eiga auðvitað sinn stað í dagskránni, en það er ekki meginhlutverk Ríkissjónvarps að dreifa íþróttaefni.
Það væri góð jólagjöf til þjóðarinnar, ef þeir ráðherrar í ríkisstjórn Íslands sem öllu ráða um mál Ríkisútvarpsins , fjármálaráðherra og menntamálaráðherra létu nú lofta út í Efstaleitinu. Þar þarf að hleypa inn ferskum vindum.
Ráðherrarnir gætu byrjað það verk á því að boða til einskonar þjóðfundar um Ríkisútvarpið, framtíð þess og hlutverk í þjóðarþágu.
Til hamingju með daginn og vonandi nýja framtíðarsýn !
Skildu eftir svar