«

»

Molar um málfar og miðla 492

Orðið jarðlest ,sem nú er oft  notað  um farartækin sem einu sinni voru kölluð neðanjarðarlestir, er fínt  orð.  Kemur  í stað orðs sem var bæði langt og óþjált. Jarðlestarstöð er hundrað sinnum betra en neðanjarðarlestarstöð. Gaman væri að vita hvaða orðhagi maður  bjó  til orðið  jarðlest.  

      Rétt er að vekja  athygli þeirra sem  semja  íslenska  texta  við fréttir  Stöðvar  tvö að orðið  reður  er karlkyns  ( auðvitað!)  en  ekki  hvorugkyns eins og  var í  kvöldfréttum (04.01.2011)

  Úr frétt á visir.is ( 05.01.2011):  Þá hefst karokímaraþon, til stuðnings íslenskrar náttúru, sem mun standa allt fram á laugardag.  Hér ætti að standa  : … til stuðnings íslenskri náttúru… 

    Afkoma   ferðaskrifstofunnar Iceland Express  er að líkindum ekki upp á  marga fiska um þessar mundir  ef marka má   gauðrifnar gallabuxur forstjórans sem   áhorfendur komust ekki hjá því að sjá í fréttatímum beggja  sjónvarpsstöðvanna  (04.01.2011).     

   Enn er sunginn  slagarinn alkunni úr  fyrri heimsstyrjöld: It´s a long way to Tipperary, en þar segir m.a. í einni gerð textans:  Singing songs of  Piccadilly, Strand and Leicester Square”. Snemma í enskunámi  var manni kennt er  að bera  fram   staðaheiti eins  Leicester Square  og Leicestershire. Slík kennsla er  ef til vill ekki á boðstólum í dag.  Framburðurinn er óravegu frá  rithættinum  ( eins og oft í ensku). Leicester  er   borið  fram: lester. Það var  þess vegna  dálítið óvenjulegt að heyra  fréttamann  Ríkisútvarps  (22.12.2010) segja  skýrt og greinilega Leisesterskíri. Það sama  á við um orðið Gloucester. Það er borið fram  gloster.   Annað erlent  heiti  , nafn sambandsríkisins   Arkansas í Bandaríkjunum  var  rangt  fram borið bæði í fréttum Stöðvar tvö og  Ríkissjónvarpsins  (03.01.2011) Í  báðum tilvikum var það  borið fram með  sterku  s- hljóði í  endann.  Réttur framburður   er  hinsvegar:  arkanso með daufu r-hljóði og án  s-hljóðs í endann. Þetta eru atriði sem fréttamenn útvarps- og sjónvarps eiga ekki að flaska á. En gera samt. Meira að segja gamlir jaxlar í faginu.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Sigurjón fyrir þennan athyglisverða fróðleik.

  2. Sigurjón H. Birnuson skrifar:

    Orðið jarðlest er fremur gamalt í málinu. Páll V. G. Kolka orti svo í kvæðinu Times Square, sem birtist í tímaritinu Skildi 5. júlí 1924:

    Jarðlestin tæmist í tryllingshug,
    hún teigar að nýju og þeytist á bug.
    Stynja við hjólin og stálspor hörð.
    Hver stundin er dýrmæt á kvöldin,
    því flaumósa’ er nautnþyrstur fjöldinn.

    Þessi skýring fylgdi: „[E]r það einhver hin stórfeldasta sjón, sem fyrir augun ber í heimsborginni, þegar maður kemur að kvöldi til upp úr jarðlestinni upp á yfirborð jarðarinnar og sjer tugi þúsunda af blikandi og kvikandi rafljósum á allar hliðar ….“

    Þorsteinn Antonsson notað orðið í grein sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 22. desember 1969: „Fólkið sem kerfi, borgin sem kerfi án þess að snerta hvert annað. Stokkhólmur hinn lágværi; hljóðskraf, hrísl í míkrafóni í bús og jarðlest.“

    Kristinn R. Ólafsson þekkti orðið árið 1992. Smásaga hans Gjöfin birtist í Lesbók Morgunblaðsins 21. desember þess árs: „Þetta sama kvöld kysstust þau fyrsta kossinum, við jarðlestarstöðina á San Bernardo, stuttum kossi á lokaðan munn, grunlaus um heita lokakossa og kaldar kveðjur daginn áður en hann hélt aftur til Íslands, alfarinn.“

    Vafalítið hafa margir notað orðið bæði fyrr og síðar, en Kristni R. má líklega þakka útbreiðslu þess; að minnsta kosti fór það allt í einu að sjást á prenti eftir að hann tók að nota það í kveðjum sínum frá Ispagna upp úr 1990.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>