…. á því hafi orðið engin breyting, sagði fréttamaður Ríkisútvarps í sexfréttum (06.01.2011). Varla getur þetta orðalag talist til fyrirmyndar. Betra hefði verið að segja: Það hafi ekki breyst , eða á því hafi ekki orðið breyting.
Innanríkisráðherra talaði í kansellístíl í fréttum Stöðvar tvö (06.01.2011), þegar hann talaði um að búa til sjálfbærrar einingar sem væru sjálfsaflandi. Þetta var í tengslum við nýja skattlagningu á bifreiðaeigendur ,sem gengur undir nafninu vegtollar. Pólitíkusar vilja kalla vegtolla notendagjöld. Ruglið!
Enn einu sinni viku fréttir Ríkissjónvarpsins fyrir boltaleik (07.01.2011). Íþróttadeildin er einvaldur Efstaleitisins.
Svolítið skondið mismæli mátti heyra í áttafréttum Ríkisútvarpsins (07.01.2011). Þar var verið að segja frá afleiðingum sölu og dreifingar á díoxín-menguðu fóðri. Í inngangi fréttarinnar var sagt að bönnuð hefði verið sala á afurðum frá 4700 kúm. Í fréttinni kom hinsvegar fram að um var að ræða afurðir frá 4700 búum, sem er svolítið annar handleggur. Þetta var auðvitað ekki leiðrétt. Slíkt heyrir til undantekninga í Efstaleiti.
Stundvísi í dagskrá er metnaðarmál hjá útvarps- og sjónvarpsstöðum. Þau mál eru í góðu lagi hjá Rás eitt og Rás tvö í Efstaleitinu. Hjá Ríkissjónvarpinu er kæruleysið og tillitsleysið við áhorfendur/hlustendur algjört. Oft er lítið sem ekkert að marka auglýsta dagskrá. Endursýning þátta er færð fram frá auglýstum tíma og oftar en ekki er dagskráin langt á eftir áætlun. Í gærkveldi (föstudagskvöld ,07.01.2011) hófst sýning Barnabyþáttarins tíu mínútum síðar en auglýst var. Það er einfalt og útlátalaust fyrir þann sem stjórnar útsendingu að skrifa stutta tilkynningu á skjáinn um seinkun dagskrár. Þetta gera sjónvarpsstöðvar sem hafa metnað og sýna viðskiptavinum sínum kurteisi. Það tíðkast ekki hjá Ríkissjónvarpinu.
Loksins , loksins gæti maður sagt. Ríkisútvarpið boðar nú sýningu átta þátta um íslenska söngvara. Það er lofsvert og þó fyrr hefði verið. Fyrsti þátturinn með okkar frábæru Diddú, Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, verður annað kvöld. Tilhlökkunarefni.
Skildu eftir svar