Skrítnar eru fyrirsagnir á fréttavef Ríkisútvarpsins. Þar segir til dæmis : Sólheimar til sátta. Í fréttinni kemur fram að deiluaðilar hafi orðið sammála um að vísa Sólheimadeilunni til sáttasemjara ríkisins. Ríkisútvarpið kallar þann ágæta embættismann sem sagt sátta. Önnur fyrirsögn og ekki betri er á frétt um vafasama ( að ekki sé meira sagt) fjármálagjörninga í gamla Landsbankanum dagana í kring um hrunið. Sú fyrirsögn er svohljóðandi: Landsbanki tíser. Molaskrifari játar, að hann skilur þetta ekki og biður málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins vinsamlegast að skýra fyrir þeim sem fréttavefinn lesa hvað þetta þýðir. Fréttavefur Ríkisútvarpsins er ekki vettvangur fyrir innanhússlangur eða einkabrandara.
Molavin ,sem stundum gaukar góðum ábendingum að Molaskrifara, sendi eftirfarandi: „Þrátt fyrir margendurteknar ábendingar flaskar fréttastofa RUV enn í kvöld á embættisheiti næstráðandi embættismanns Bandaríkjaforseta. „White House Chief of Staff“ er ekki starfsmannastjóri forsetaembættisins. Því hlutverki gegnir rekstrarstjóri forsetaembættisins, en það embætti heitir á ensku: Office of the Chief Administrative Officer (OCAO). Ein af þremur skrifstofum hans fer með starfsmannamál og heitir sú Human Resources Management Division. Allt má þetta sjá á heimasíðu forsetaembættisins.
William Daley, sem í dag var kynntur til sögunnar sem æðsti embættismaður Bandaríkjaforseta, White House Chief of Staff, er í senn nánasti, pólitíski ráðgjafi forsetans og um leið sá embættismaður, sem stýrir rekstri Hvíta hússins. Það mætti hugsa sér að kalla hann forsetaritara, en starf hans er líka hliðstætt ráðuneytisstjórastarfi, því Bandaríkjaforseti er í raun forsætisráðherra landsins“.
Allt er þetta rétt og hefur áður verið nefnt í Molum, en fréttastofa Ríkisútvarpsins situr við sinn keip og hamrar á vitleysunni. Að kalla þennan embættismann starfsmannastjóra Hvíta hússins er ekki hótinu betra en þegar Morgunblaðið uppgötvaði merkan hershöfðingja í seinni heimsstyrjöld. Hann hét að sögn blaðsins General Staff.
Oft heyrist rangt farið með orðatiltækið að bera gæfu til. Við bárum ekki gæfu til að hlusta á varnaðarorð þeirra sem vöruðu við bankahruninu. Of oft heyrist: Okkur bar ekki gæfu til , eins og alþingismaður sagði í útvarpi (06.01.2011).
Í leiðara Morgunblaðsins (06.01.2011) er ráðist á Siv Friðleifsdóttur alþingismann fyrir skort á fylgispekt við formann sinn. Morgunblaðið hefur þungar áhyggjur af ástandinu í öðrum flokkum. Ætti kannski að huga meira að sínum flokki. Menn verða ekki lengur hissa á því sem Morgunblaðið skrifar um stjórnmál. Blaðið er upp á kant við veröldina og veruleikann. Í Moggaleiðurum er vitnað í slúðurvefinn AMX og AMX slúðurvefurinn vitnar í Moggann. Þá er umræðan fullkomin, komin í hring og orðin einskonar langavitleysa.
Það er rétt hjá forstjóra 365 miðla, að handboltatilboð Ríkisútvarpsins til Stöðvar tvö hljómar í eyrum flestra eins og framhald áramótaskaupsins ( sem var að vísu býsna gott). Ríkisútvarpið er að reyna að tryggja eftir á. Ráðamenn þar hafa líklega aldrei heyrt auglýsinguna ágætu: Þú tryggir ekki eftir á.
Skildu eftir svar