«

»

Molar um málfar og miðla 496

Ólafur Egilsson, sendiherra,  er áhugamaður um íslenska tungu. Hann sendi Molum  eftirfarandi línur: „Mér kemur í hug að bera undir þig hvað þér finnist um nokkur orð og orðasambönd sem títt eru notuð í fjölmiðlunum en hljóma heldur klúðurslega:    1. óásættanlegt – sérhljóðarnir tveir í upphafi valda því að orðið lætur stirðlega í munni og í staðinn má oft nota t.d. ótækt, ófært, nú eða þá það sem löngum var sagt: óviðunandi, sem er liprara.   2. kemur til með að – þarna er heldur betur teygður lopinn, þegar gjarna er hægt að komast af með eitt orð: mun   3. hamborgarahryggur – nú iðulega, ekki síst um hátíðarnar, notað um það sem löngum hefur heitið hamborgarhryggur enda óskylt hamborgurum að öðru leyti en því að hvortveggja er vinsæl fæða.   4. sannfærandi sigurheyrist oft hjá íþróttafréttamönnum þegar átt er við: öruggan sigur”. Kærar þakkir, Ólafur. Molaskrifari er sammála þér í einu og öllu. 

 Fyrir nokkru  vék Molaskrifaði að því, að  Síminn sýndi ekki öldruðum sérstaka virðingu með því að auglýsa  síma  sem  væru sérstaklega fyrir  afa, – þeir hefðu  eins getað  sagt að þetta væru  aulasímar, –  símar fyrir þá sem ekki réðu  við snjallsíma eða  flókna síma.  Í auglýsingunni var gengið út frá því að afar væru ekki mjög snjallir.  Molalesandi á  Akureyri , sem hafði keypt   svona afasíma sendi Molaskrifara leiðbeiningabækling, sem  Síminn dreifir með símtækinu.

  Skemmst er frá því að segja að  sjaldan hefur  Molaskrifari sé  jafn subbulegan texta. Sendandinn sagðist reyndar hafa  þurft að leita  að náðir  bæklings á ensku  til að  skilja leiðbeiningarnar. Íslenski bæklingurinn  hefst á orðunum:  Full hleðsla á rafhlöðunum mun ekki nást fyrr en það er búið að hlaðast  5-6 sinnum. Þetta er  bara byrjunin. Í upphafi næstu málsgreinar  segir svo:  Það er ekki hægt að hlaða rafhlöður „of“ mikið eða  eyðileggja þau með því að  hafa símann of lengi í hleðslu. Seinna segir: Hátalari virkar ekki þegar það er  lítil rafhlaða eftir.

  Molaskrifara skortir nennu til að telja upp allar villurnar í þessum  stutta bæklingi, en nefnir þó að  allsstaðar þar sem ætti að standa ýtið stendur ýttið. Þar sem ætti að standa ýta stendur ýtta og  allsstaðar þar sem ætti að standa flettið stendur  fléttið ! Á baksíðu bæklingsins kemur fram  að  það er fyrirtækið Tæknivörur hf í  Kópavogi sem selur þessa síma í heildsölu og gerir við þá. 

 Fyrirtækið ætti að innkalla þessa bæklinga og  láta leiðrétta  málfarið þannig að þeir séu fyrirtækinu  til sóma en ekki til skammar eins og nú er.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>