Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú, er stórkostleg söngkona, – og manneskja. Þáttur Jónasar Sen um hana í Ríkissjónvarpinu var prýðilegur og lofar góðu um þá sjö þætti í þessari þáttaröð, Átta raddir, sem við eigum eftir að sjá og heyra. Það var rétt, sem Margrét Bóasdóttir sagði, að Sjónvarpið gerði mikið fyrir sönglistina á sínum fyrstu árum. Söngur og sígild tónlist hafa undanfarin ár verið hornrekur í Efstaleitinu í mörg herrans ár. Því þarf að breyta. Vonandi er þessi þáttaröð merki um að nú örli á breyttri hugsun þar efra.
Sjómenn voru í engu hátíðarskapi, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (09.01.2011) og í þróttafréttamaður Ríkissjónvarpsins réri á sömu mið og sagði: Honum urðu á engin mistök. Betra hefði verið: Sjómenn voru ekki í hátíðarskapi og hann gerði engin mistök, eða honum urðu ekki á nein mistök.
Skrítið að fréttamenn ( Stöð tvö 09.01.2011) skuli kalla þingmanninn Lilju Mósesdóttur , Lilju Móses. Eiginlega ekki bara skrítið, heldur asnalegt.
Viðskiptavinir Ríkissjónvarpsins eru ýmsu vanir, þegar kemur að röðun efnis í dagskrár. Öll þjóðin horfir á Áramótaskaupið. Það er sá þáttur í Ríkissjónvarpi,sem allra mest er horft á. Svo er Skaupið endursýnt, sem er sjálfsagt mál. En það átti ekki að gerast á besta tíma á laugardagskvöldi. Það er ekki tíminn fyrir endursýnt efni. Ekki einu sinni Áramótaskaup.
Þeir sem kaupa erlent efni til sýningar í Ríkissjónvarpinu leggja sig í framkróka um að finna rusl og dellumyndir til að sýna á besta tíma kvölds á föstudögum og laugardögum. Því hefur verið haldið fram við Molaskrifara að þetta efni sé keypt eftir vigt á útsölum vestanhafs. Það er nú varla satt. En það er með ólíkindum hvað innkaupastjórar eru naskir á að finna lélegar amerískar bíómyndir til sýna okkur um helgar.
Skildu eftir svar