Batnandi fólki er best að lifa. Seinni fréttum Ríkissjónvarps seinkaði um 12 mínútur í gærkveldi. Tilkynning var sett á skjáinn um klukkan tíu um seinkunina og Bogi ,sem las fréttirnar, baðst afsökunar á seinkuninni. Gott mál. Vonandi verður haldið áfram að sýna áhorfendum þá kurteisi að tilkynna og biðjast afsökunar, þegar dagskrá fer úr skorðum. Hinsvegar má líka viðra þá skoðun hvort Kastljósið var ekki aðeins of langt.
Valinkunnur Sunnlendingur hafði samband við Molaskrifara og lýsti vanþóknun á nafni hins nýja gufubaðs á Laugarvatni, sem á að heita Fontana. Hann var þeirrar skoðunar, að þessi nafngift væri óþörf. Nota ætti orðið gufubað. Undir það tekur Molaskrifari. Á þetta hefur líka verið bent í athugasemdum við Mola. Einn af aðstandendum fyrirtækisins sagði í sjónvarpi, að orðið fontana væri latneska. Venjulega orðið yfir það ágæta tungumál, sem enginn talar lengur, er latína. Ekki finnur molaskrifari orðið fontana í þeirri latnesku orðabók, sem honum er tiltæk. Orðið fontana er hinsvegar til í ítölsku og þýðir lind eða brunnur, – hefur ekkert með gufu að gera. Fontana di trevi er einn frægasti gosbrunnur Rómaborgar. Þar er ekki vitað til að sé gufubað. Það er hárrétt,sem Halla Sverrisdóttir sagði í athugasemdum (Molar 512), – nafnið á nýja gufubaðinu hljómar eins og nafn á vondum gosdrykk !
Í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna (24.01.2011) varð mönnum tíðrætt um þroska. Talað var um að þroska efni kjarasamninga og að mál væri þroskað. Miður gott orðalag. Af hverju ekki gera kjarasamning ? Þá kom og við sögu orðatiltækið á ársgundvelli. Dugað hefði prýðilega að segja á ári.
Molaskrifari veltir því fyrir sér hvort Rás eitt í Ríkisútvarpinu hafi ekki aðgang að hljóðritunum annarra píanóleikara en Gunnars Gunnarssonar, þegar um er að ræða tónlist af léttara tagi. Ekki það að hann sé ekki góður píanóleikari. Vart líður sá dagur að við heyrum ekki í þessum ágæta tónlistarmanni, en við eigum marga, marga fleiri, sem sjaldan eða aldrei fá að njóta sín á öldum ljósvakans í Rás eitt. Hvað veldur?
Umsjónarmaður morgunútvarps Rásar tvö (25.01.2011) ræddi niðurskurð hjá tónlistarskólum í Reykjavík og spurði hvort ætti að ganga fram af tónlistarskólunum. Hann átti sennilega við hvort ætti að ganga frá tónlistarskólunum. Gera út af við þá. Gera þeim ókleyft að starfa. Að ganga fram af einhverjum er að ofbjóða einhverjum með framkomu eða tali.
Skildu eftir svar