Vísindamaðurinn og forstjórinn Kári Stefánsson skrifar grein (12.02.2011) ,sem birt er á besta stað í Morgunblaðinu, hálf síða í leiðaraopnu á hægri síðu.
Grein Kára hefst á tilvitnun í Biblíuna. Fyrstu Mósebók, fyrsta kapítula, þriðja vers: „Guð sagði: „Verði ljós“. Og það var ljós.“ Heimildar er reyndar ekki getið.
Kári Stefánsson kennir Alþingismönnum um bankaleynd og segir þá vera svo flækta í spillingarmál að þeirr óttist afnám bankaleyndar. Þeir vilja sem sagt ekki að það verði ljós í bönkunum. Ætla mætti að þessi þunga ásökun um spillingu Alþingismanna styddist við veigamikil rök og helst óhrekjanleg. Svo er reyndar ekki. Kári segir í greininni:
„Sú saga gengur nefnilega fjöllum hærra að ástæðan fyrir því að Alþingi hafi ekki hróflað við bankaleyndinni sé sú að stór hluti þingheims standi í þeirri trú að ef henni yrði létt kæmi í ljós fjármálaspilling þeirra sjálfra sem þoli ekki dagsins ljós.“ Hann bætir svo við að sögunni trúi hann ekki , því á Alþingi sitji heiðarlegt afburðafólk. En hversvegna þá að setja þennan söguburð á prent? Hversvegna styðjast við Gróu á Leiti ? Hversvegna lepja upp kjaftasögur ? Hversvegna skrifa um eitthvað sem „gengur fjöllunum hærra“. Það er vísindamanni ekki sæmandi. Það getur meira en verið að Gróa á Leiti sé á róli í kringum Hádegismóa ofan við Rauðavatn um þessar mundir. En vísindamaðurinn Kári Stefánsson hefði átt sleppa því að styðjast við hana í málflutningi sínum.
Þetta er viðlíka málflutningur og þegar útvarpsstjóri Útvarps Sögu fullyrðir við hlustendur (14.02.2011) að ónafngreindum Alþingismanni hafi verið neitað um gistingu á bestu hótelum Evrópu vegna óreglu. Órökstuddar svívirðingar og dylgjur. Kári segist að vísu ekki trúa kjaftasögunni,sem hann vitnar til. .
Morgunblaðið gerir svo enn betur við Kára Stefánsson í næsta blaði og helgar honum heilan leiðara. Það er vissulega gott að aflétta bankaleynd . En Morgunblaðið skrifaði ekki mikið um afnám bankaleyndar, þegar verið var að einkavinavæða ríkisbankana, – færa þá úr þjóðareigu og rétta handvöldum ástmögum stjórnarflokkanna þá á silfurfati. Þá var ekkert að því að hafa bankaleynd. Þá varð allavegana ekkert ljós í leiðurum Morgunblaðsins.
Skildu eftir svar