«

»

Molar um málfar og miðla 544

  Þegar fréttamenn  rifja upp liðna atburði eiga  þeir   að fara rétt með staðreyndir. 1. mars  var sagt frá því í morgunútvarpi Útvarps  Sögu, að þann dag árið   1940 hefði vélbáturinn Kristján komið til heimahafnar  eftir  tólf  daga  hrakninga og var þá  búið að telja bátinn  af.   Vélbáturinn kom  ekki   til  heimahafnar, sem var Sandgerði,  heldur  rak  bátinn upp í  fjöru skammt frá  Höfnum á  Reykjanesi.  Fjöldi breskra  togara var að veiðum undan Höfnunum  en enginn þeirra sinnti  bátnum. Frá þessu segir m.a. í ágætri frásögn Ragnhildar Sverrisdóttur í Morgunblaðinu 20.12. 1998.. Ekki heyrði Molaskrifari betur en rangt væri farið með  fleira í frásögn Útvarps Sögu. Fullyrðir þó ekki ,þar sem honum kann að hafa misheyrst.   Fjölmiðlar  gera mismiklar kröfur um að rétt sé farið  með. Sumstaðar þarf þetta ekki að vera  svo nákvæmt.

 Morgunþáttarmaður Útvarps Sögu  fjallaði um geldingu  grísa. Hann átti í erfiðleikum með sögnina að gelda.  Grísir  eru geltir, gerðir ófrjóir og sviptir kynhvöt  með því að  fjarlægja eistu eða merja sundur sáðrásir, svo  vitnað sé í orðabók.  Kýr  eru geldar  þegar þær mjólka ekki. Halldór Runólfsson yfirdýralæknir,sem rætt var við,  var  með þetta allt á hreinu.

 Í fréttum Ríkissjónvarps er   aftur og  aftur talað um framkvæmdarvald. Molaskrifari  hélt að  ríkjandi málvenja  væri að tala  um framkvæmdavald.

 Þegar Molaskrifari kveikti  stutta stund á útvarpi um miðja nótt (02.02.2011) var verið  að ræða  við jógakennara á  Rás eitt. Endurflutt efni.  Um morguninn var aftur  rætt við jógakennara í morgunþætti Rásar eitt.  Ríkisútvarpinu er  greinilega mikið í mun að auglýsa  jógakennslu þessa dagana.  Eitt  viðtal hefði  dugað.

 Undarleg bandalög verða til í pólitík. Um þessar mundir slitnar ekki slefan milli Morgunblaðsins, Útvarps Sögu og Bessastaða. Ekki amalegur klúbbur. Lesendur  Morgunblaðsins  geta bókað  að á  hverjum einasta   degi fram að þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl  finni Morgunblaðið  Icesave-samningnum  ekki flest , heldur allt til foráttu. Verða  margir sótraftar á sjó dregnir  til að lofsyngja málstað blaðsins. Blaðamenn flestir ,  virðast  hafa tekið trú ritstjórans, nema líklega Kolbrún Bergþórsdóttir,sem áfram segir skoðanir  sínar umbúðalaust.

   Theodór  Lúðvíksson sendi Molum eftirfarandi: „Mig langaði að nefna að mjög oft í fréttum á Íslandi, kannski frekar hjá blöðunum, er ætlast til að lesendur viti mjög margt og þess vegna sé óþarfi að gefa nokkur smáatriði.  Dæmi – í Vísi í dag er frétt um að miðasala í Hörpu hefjist á hádegi í dag og búist sé við miklu álagi við miðasöluna og á netinu.  En hvenær opnar Harpa!  Ég þurfti að hafa fyrir að leita að því.“    Rétt ábending. Harpa opnar hinsvegar ekki  í maí. Hún verður opnuð í maí.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>