«

»

Molar um málfar og miðla 545

Um tónlistarhöllina Hörpu sagði fréttamaður Ríkisútvarps (01.03.2011) að húsið  væri  komið til að vera. Molaskrifara létti stórlega að heyra  að húsið væri  ekki á  förum, en  hann  ætlar að sækja   seinni opnunartónleikana.

 Úr mbl.is (01.03.2011): Flóttamannastofnun SÞ hvetja til þess að tugþúsundir flóttamanna sem hafa flúið til Túnis undan átökunum í Líbíu,…  Hér ætti að standa Flóttamannastofnun Sþ  hvetur til þess að…..

 Merkilegt fréttamat er það hjá  Ríkisútvarpinu þegar  það er tilefni  viðtals og ítarlegrar fréttar, að íþróttamaður  skuli hafa  fingurbrotnað.

Manni langar, sagði  morgunmaður Útvarps Sögu (03.003.2011). Þrálát sýki þágufallssýki. Sami maður  sagði að  togari hefði farið  til sjós. Menn fara til sjós. Skip láta úr höfn eða sigla  til veiða.

 Úr fréttatilkynningu  frá  Héraðsdomi  Reykjaness  eins og  vitnað var til hennar á visir.is (01.02.2011): Af gefnu tilefni skal upplýst að lögmaður bótakrefjanda, Helga og Jónu, hafði fyrir nokkru síðan tilkynnt dómara að aðstandendur Hannesar færu erlendis 26. febrúar sl.  gefnu tilefni tekur Molaskrifari  fram að á íslensku er ekki talað um að fara  erlendis,  heldur  fara  til útlanda eða fara utan. Fólk getur  hinsvegar  dvalist erlendis  eða  verið erlendis.

 Tvennt var einkar  ósmekklegt og ófaglegt í fréttum Stöðvar tvö á þriðjudagskvöld (01.03.2011). Hið fyrra var umfjöllunin um dóm Héraðsdóms Reykjaness í Hafnarfjarðarmorðmálinu.  Viðtölin við aðstandendur fórnarlambsins áttu ekki erindi í fréttir. Hið síðara  var viðtalið við  einhverfu  stúlkuna,  sem orðið hafði fyrir  því að skemmdarverk  voru unninn  á  bíl hennar.  Algjörlega óboðleg fréttamennska.  Ríkissjónvarpið  afgreiddi hinsvegar   dómsuppkvaðninguna  í  Hafnarfirði  óaðfinnanlega.

Líklega þarf að lofta út í sjónvarpssal ÍNN.  Sjónvarpsstjórinn er svo oft á svipinn eins og hann finni vonda lykt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>