Á framboðsfundum í Vesturlandskjördæmi fyrir 30 árum gerðu kommúnistar og hernámsandstæðingar gys að þeirri kenningu minni, að vera varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli skapaði okkur öryggi og ákveðna festu í þessum heimshluta. Vera bandaríska varnarliðsins á Íslandi væri mikilvæg. Færi varnarliðið, mundi skapast tómarúm,sem þrýst væri á úr öllum áttum og yrði því ekki lengi tómarúm. Þetta sannast núna. Varnarliðið er farið og umferð rússneskra herflugvéla í grennd við landið og lofthelgi okkar fer ört vaxandi. Sjálfsagt fjölgar einnig ferðum rússneskra kjarnorkukafbáta í hafdjúpunum umhverfis landið. Það er bara ekki fylgst með því lengur. Örugglega er það rétt sem Björn Bjarnason og fleiri fróðir menn benda nú á að ýmsir ráðamenn vestan hafs nagi sig nú í handarbökin yfir þeirri skammsýnisákvörðun að hverfa héðan með þann litla liðsafla sem hér var.Það var röng ákvörðun í ljósi vaxandi mikilvægis norðurslóða og sívaxandi siglinga flutningaskipa og herskipa um hafsvæðin hér fyrir norðan okkur.
![]() |
Enn stafar ógn af hernaði Rússa |
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Haraldur Rafn Ingvason skrifar:
13/09/2008 at 21:47 (UTC 1)
Bull!
Rússaflugið fer um lofthelgi fleiri ríkja s.s. Noregs og Dammerkur, að ógleymdu flugi Rússa út yfir Kyrrahaf. Þetta er aðferð Rússa til að sýna að björninn sé vaknaður eftir ákveðið niðurlægingartímabil (að eigin mati) og hefur ekkert að gera með brotthvarf varnarliðsins. Helsta ástæðan fyrir því að Rússarnir eru að minna á sig er að NATO er komið upp í kartöflugarða hjá þeim. Sú útþensla getur nú ekki talist gáfuleg og það að setja niður eldflaugavarnakerfi á þessu svæði, með þeim hæpnu rökum að verjast þyrfti Írönum og N-Kóreu, bætti gráu ofan á svart.
Í raun eru Rússar í mjög góðum málum þar eð megnið af V-Evrópu er efnahagslega háð þeim vegna gasútflutnings þeirra. Það hreðjatak hefur V-Evrópa gengist inná algerlega sjálfviljug.
Það sem virðist vera að gerast í Kálkasus er trúlega sambærilegt við fyrrum Júgóslavíu. Þar urðu til sjálfstæð ríki með íhlutun NATO og nú er verið að leita einhverskonar sambærilegs jafnvægis í þessum fyrrum „Sovétlýðveldum“ – jafnógeðfelt og það nú er. Þetta er ormagryfja sem NATO ætti að fara mjög varlega að.
Minni í lokin á að fyrir 30 árum var Rússaflugið upp á sitt besta. þá var kalda stíðið líka á fullu og hellingur af varnarliði á vellinum. Og Rússarnir flugu samt!