«

»

Molar um málfar og miðla 621

Það þurfti einn af helgidögum þjóðkirkjunnar, uppstigningardag, til að fá Ríkissjónvarpið til að sinna   sígildri tónlist. Þá  (02.06.2011) voru  endursýndir tveir prýðilegir þættir, Kristinn Sigmundsson á Listahátíð í fyrra og þáttur úr  þáttaröð Jónasar Sen Tíu fingur þar sem þau  Anna Guðný Guðmundsdóttir og Sigurður Snorrason  voru í  forgrunni. Gott efni, en gaman  væri líka að fá að sjá  eitthvað nýtt. Í kvölddagskrá  var fínn þáttur um Þingeyrakirkju. Það er  til skammar hve lítið af íslensku menningarefni   er í  Ríkissjónvarpinu. Þakka  ber þó það litla sem okkur er boðið.

Bjarni Sigtryggsson sendi Molum eftirfarandi: mbl.is (2.6.2011) er ekki eini fjölmiðillinn, sem notar þessa óþörfu viðbót: “ lítið skip með um 800 manns innanborðs sökk þar í gær.“ Mjög oft er talað um flugvélar með svo og svo marga farþega „innanborðs“ þótt ljóst megi vera að farþegar séu alla jafna hvorki hangandi utan í flugvélum né dregnir á eftir skipum. Það sama á við þegar sprengingar verða. Þá er of oft talað um að eitthvað springi „í loft upp.“  Jafnvel flugvélar á flugi. Einfalt og skýrt mál kemur merkingu frétta best til skila.

 Hvað  segja lesendur um orðalagið: .. og manninum var þá samstundis komið undir hendur lækna, sem notað var í tíu fréttum Ríkisútvarps (02.06.2011). Nú má vera að þetta  sé  gott og gilt orðalag. Molaskrifara hefði  þó fundist eðlilegra að segja: … og manninum var þá samstundis komið í læknishendur.

Af pressan.is (03.06.2011) Tollvörður í hliðinu sá að konan hafði verslað talsvert af fötum …  Hér ruglað pressuskrifari sögnunum að versla og kaupa, sem hreint  ekki  hafa sömu merkingu. Skrifari átti  við að konan  hefði keypt  talsvert  af  fötum.  Hún hafði verslað mikið.  Þessi vísa verður aldrei of oft kveðin.

Í fréttum Stöðvar tvö (03…06.2011) af  konu sem átti á þriðja tug hunda og  nokkra ketti  að auki, var  sagt að heilsufar hundanna hafi verið ábótavant. Hér  átti heilsufar á  vera í  þágufalli, –  heilsufari, –  einhverju er ábótavant.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Já, – yfirleitt erum við sammála. Allt breytist. Tungan líka. Samt þarf að andæfa. Geri mér ljóst að það kemur sú tíð að það þykir gott og gilt mál að fara út í búð og versla mat. Margir sjá ekkert athugavert við það orðalag.

  2. Benedikt Axelsson skrifar:

    Ég er sammála þér eins og oftast nær. Um það að koma einhverjum í eða undir læknis hendur er rétt að mínu viti en það má vel vera að allir skilji hvað það þýðir að koma fólki undir hendur lækna. Ég hef tilhneigingu til að fyrirgefa flest, sem sagt er á prenti, sem ég skil. Um það að versla og kaupa erum við sammála en samkvæmt kenningunni um að allt skuli gott og blessað, sem sagt er nógu oft, verðum við að lúta í lægra haldi fyrr en seinna. Það er bæði eðlilegt og sjálfsagt að tungumál þróist og breytist en það er þjóðum ekki hollt að fólk skilji ekki hvert annað þegar það talast við. En stundum getur verið gaman að eðlilegu máli eins og:
    Kona var dæmd fyrir þjófnað í Héraðsdómi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>