«

»

Molar um málfar og miðla 626

 

Sumarið stendur á sér, stóð skýrum stöfum á skjánum  í upphafi fréttatíma Stöðvar tvö  (09.06.2011).  Heldur er þetta  nú rasshandarlegt orðalag að mati  Molaskrifara. Betra hefi verið: Sumarið lætur á sér standa.

Pressan  skrifar um  fyllerí  verslunarskólastúdenta  í útskriftarferð á Spáni. Þar segir: … sagt að ekkert væri hægt að gera til að leysa ástandið.  Rangt er að tala um að leysa ástand. Ástand er hægt að  laga eða  bæta.  Fréttinni fylgir mynd af  blaði með orðsendingu á  brogaðri ensku  til hótelgesta. Þar  segir, að hver sá  stúdent  sem   sé  með  hávaða  eða óspektir: ..  will be  moved  from  the  hotel ungently.    Verði sem sagt  fjarlægður harkalega af hótelinu!   Ef til vill hefur átt að standa  þarna  urgently ( samstundis) í  stað  ungently! !

 

Vörubíll missti mörg hundruð kílóa af járnstöngum fyrir utan tónlistarhúsið Hörpu nú fyrir stundu. Seint verður líklega sagt að þetta sé  vel orðað hjá þeim skrifaði fréttina. (visir.is 09.06.2011). Vörubílar missa  ekki járnstengur. Þær hafa  líklega fallið af vörubíl. Hér hefði til dæmis mátt segja: Nokkur hundruð kíló af  járnstöngum féllu af vörubíl….

Ótrúlega oft  má heyra slettur í máli þeirra sem rætt  er við í fréttum. Í fréttum Stöðvar  tvö (09.06.2011) talaði kona sem rætt  var við um  spennandi  konsept og karl, sem rætt var  við talaði  um alveg nýtt level.

 

Undarleg og einkennilega endaslepp ,,frétt´´  um  útfararstjóra á Spáni slæddist inn í  fréttatíma  Ríkisútvarpsins (09.06.2011). Þessi dellufrétt átti ekkert erindi á skjáinn, en  vegir  fréttastofu ríkisins eru   stundum órannsakanlegir. Sjá: http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4547369/2011/06/09/12/

Fínn þáttur í Kastljósi (09.06.2011) um Vatnshelli í Purkhólahrauni á Snæfellsnesi. Þessari einstæðu náttúrusmíð voru gerð góð skil. Þar hafa verið unnin afrek, sem rétt er að halda á lofti.

Fyrsti þáttur  í nýrri þáttaröð í Ríkissjónvarpinu, Tríó, (09.06.2011) var  ekki sem verstur.  Maður gerir reyndar nú orðið ekki miklar kröfur til þess sem kemur úr Efstaleitinu.

Skyldi koma að því að því, að  umsjónarmenn fastra þátta í Ríkisútvarpinu hætti að  tala barnamál við okkur hlustendur? Hætti að segja okkur að eitthvað sé pínu svona eða pínu hinsegin. Það er hálfgerð pína að hlusta á svona lagað. Taki þeir til sín sem eiga.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>