«

»

Molar um málfar og miðla 627

Sjónvarpsstjóri ÍNN talaði (10.06.2011) um heimsk lagafrumvörp. Molaskrifari er á því að  lagafrumvörp geti verið  heimskuleg, en ekki heimsk. Jafnreyndur  maður  og sjónvarpsstjórinn er  ætti ekki að flaska á beygingu orðsins  gjaldeyrir.

Kastljósið hefur oft  verið  gott að  undanförnu meira að segja mjög gott á stundum.  Fíflagangurinn í þættinum í kvöld (10.06.2011) var hinsvegar óskiljanlegur. Það er illmögulegt að taka  fólk alvarlega  sem lætur  eins og bjánar fyrir  framan myndavélarnar. Þetta var ekki fyndið. Bara hallærislegt.  Kastlýsingar verða  að gera sér grein fyrir því að fólk sem stýrir svona þáttum er um margt  fyrirmyndir barna og unglinga.

Í fréttum af Alþingi frá lokatörn þingsins hefur komið rækilega í ljós, að þegar kemur að kurteisi, siðfágun og almennum mannasiðum, ber Árni Johnsen höfuð og herðar yfir  samþingsmenn sína.

Oft er úrvals  efni á Rás eitt  snemma á laugardagsmorgnum. Það  brást ekki í morgun (11.06.2011).  Tónlistin sem Sigvaldi Júlíusson  leikur úr þularstofu milli klukkan  sjö og átta  er jafnan smekklega valin. Síðan tók við  prýðilegur þáttur, (endurtekinn) Kristjáns Sigurjónssonar  úr þáttaröð um vikudagana. Þar var margur fróðleiksmolinn vel fram settur.

Fjórum eða fimm sinnum, að minnsta kosti,  heyrði Molaskrifari fréttastofu ríkisins  gera hlustendum grein fyrir afstöðu  Péturs Blöndals alþingismanns til rannsóknar á falli sparisjóðanna. Pétur  Blöndal  byrjaði fyrstur manna að fjasa um allt það fé sem  væri án hirðis í  sparisjóðunum. Því fjármagni þyrfti að koma í vinnu.  Sú umræða  var upphafið að  hruni sparisjóðakerfisins á Íslandi.  Pétur Blöndal var því með nokkrum hætti  sá sem velti þeim steini úr stað, sem varð sparisjóðakerfinu að falli.

Ríkisútvarpið, ( engu er líkara en starfsfólki hafi verið bannað taka sér í munn orðið  Ríkisútvarp)  sem í munni starfsmanna, heitir  nú bara Rúv, gerir sér  far um að upplýsa okkur hlustendur/áhorfendur svo sem best verður á kosið. Þannig er okkur á hverju kvöldi, og oftar en ekki tvisvar á hverju  kvöldi,  sagt frá því á  skjánum  hver sé   fréttastjóri Ríkisútvarpsins. Það ætti því ekki að fara framhjá neinum. Norrænu sjónvarpsstöðvarnar standa sig illa í þessum efnum. Þær segja  sínu fólki bara  frá því hverjir    hafi verið   verkstjórar eða vaktstjórar við gerð hvers   fréttatíma. Þar  er því haldið leyndu fyrir áhorfendum hver sé fréttastjóri. Það er auðvitað ótækt.  Þarna gerir  íslenska Ríkissjónvarpið betur við okkur  en norrænu stöðvarnar  við sitt fólk.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>