Í sunnudagsblaði Moggans (19.06.2011) fá stjórnendur Ríkissjónvarpsins og Stöðvar tvö verðskuldaða ádrepu frá Agnesi Bragadóttur, blaðamanni, sem kallar grein sína Ljósvaki á gráu svæði. Staðreyndin er auðvitað sú, að sjónvarpsstöðvarar eru ekki bara á gráu svæði, heldur svörtu, þegar þær til dæmis blygðunarlaust auglýsa áfengi. Líka er rétt að minna á að Ríkissjónvarpið auglýsir TAX FREE alveg endalaust og er engu líkara en auglýsingadeildin telji þessi ensku orð vera lýtalausa íslensku.
Gunnar Kr. Sendi Molaskrifara eftirfarandi, þegar verið var að sýna tvo knattspyrnuleiki samtímis á báðum rásum Ríkissjónvarpsins.: ,,Til að flýja þennan tröllríðandi fótbolta, stillti ég á Ísland í dag á Stöð 2. Þar var Hildur Ómarsdóttir, forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Icelandair-hótela að kynna nýtt útlit Hótels Loftleiða, sem heitir víst eitthvað allt annað í dag. Og hún sagði m.a.: „Við lítum á þetta sem tækifæri fyrir útlendinga sem gista með okkur að míngla við lókalinn.“ (Þýðir víst á íslensku að þetta sé tækifæri fyrir útlendinga að eiga samskipti við heimamenn.)
Svo bætti hún við: „Það er eins íslenskt og það getur orðið,“ … (Greinilega allt nema talmálið.)
Þeir auglýsa líka leiksýningu fyrir vildarvini, „þar sem hurðir opnast og lokast,“ en ég hef vanist því að maður noti hurðir til að opna dyr.”
Þakka sendinguna , Gunnar. Molaskrifari heyrði ávæning af þessu viðtali. Talað var um kynna hótelið fyrir heimamönnum, Reykvíkingum. Í gamla daga var það talið fremur grunsamlegt, ef menn þekktu vel hótelherbergin í sínum heimabæ!
Þannig að ég get rólegur keyrt án þess að vera með bílbelti …. skrifar einn af blaðamönnum Morgunblaðsins undir nafni (19.06.2011). Það þarf talsverðan kjark og heilmikla heimsku til þess að aka bíl án þess að nota belti, – sem raunar er lagaskylda. Kannski átti þetta bara að vera brandari.
Björt framtíð framundan, sagði í forsíðufyrirsögn í Morgunblaðinu (18.06.2011). Framtíðin er alltaf framundan. Betra hefði kannski verið: Framtíðin er björt.
Styðja Háskólann í Reykjavík um 200 milljónir, segir í fyrirsögn á visir.is (18.06.2011). 200 milljóna styrkur til Háskólans í Reykjavík, væri betri fyrirsögn.
Undarlegur sönglandi, skrítin hrynjandi sumra fréttamanna Stöðvar tvö eru hvimleið fyrirbæri. Þetta á reyndar einnig við um einn íþróttafréttamanna Ríkissjónvarps, en stúlka sem þar hefur flutt fréttir í sumar gerir það með ágætum.
Úr frétt á dv.is (18.06.2011): Hermenn þar eru mjög varir um sig eftir tvennar árásir síðasta ár. Þarna hefði farið betur á að segja: Hermenn þar eru mjög varir um sig eftir tvær árásir í fyrra.
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Þorvaldur Sigurðsson skrifar:
21/06/2011 at 06:40 (UTC 0)
„…en ég held að það þurfi einmitt að minna fólk á að vanda mál sitt svo það breytist ekki og þróist frá sínum uppruna.“
Sérkennilegt viðhorf. Hversu gamalt mál vill Örn tala? Hætt er við að fáir skildu hann ef hann talaði mál sem ekki hefði breyst og þróast frá sínum uppruna. Málið er nefnilega ekki steingerð stofnun heldur lifandi skepna og í stöðugri þróun, hvort sem mönnum líkar betur eða verr.
Eiður skrifar:
20/06/2011 at 13:13 (UTC 0)
Sæll, Örn var búinn að taka eftir þessu. Nefni það á morgun.
Sumarafleysingafólkið gengur nú laust og stingur fólk í eyrun.
K kv. Eiður
Örn skrifar:
20/06/2011 at 11:47 (UTC 0)
Sæll Eiður.
Takk fyrir góða pistla um íslenskt mál og málnotkun. Sumir hafa kallað þig málfarslöggu en ég held að það þurfi einmitt að minna fólk á að vanda mál sitt svo það breytist ekki og þróist frá sínum uppruna. Við erum rétt um 315 þús. sem tala þetta mál en sótt er að því úr öllum áttum.
Fréttakona Stöðvar 2 sagði í inngangi að frétt um ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur á Austurvelli að „hún hefði hvatt til bjartsýnis“.
Sama fréttakona sagði að ungur drengur klæddur í Súperman búning hefði“borið höfuð yfir herðar annarra í klæðaburði“. Ég hélt nú að höfuð væri yfirleitt yfir herðar allra, sama hvernig á mannskepnuna er litið.
Smá hugleiðing..kv. örn