«

»

Molar um málfar og miðla 638

Í gærkveldi (22.06.2011) umbylti Ríkissjónvarpið dagskránni enn einu sinni til að hella  yfir  þjóðina í beinni  útsendingu, tveimur  evrópskum  fótboltaleikjum unglingaliða.  Þetta er ósvífni gagnvart  þeim hluta þjóðarinnar sem er neyddur   til að borga  nauðungarnefskatt til að  kosta rekstur Ríkisútvarpsins, en hefur  ekki sérstakt dálæti á fótbolta. Ef einhver  vitglóra væri í dagskrárstjórninni í Efstaleiti ( sem  reyndar ekki er) væru þessir leikir sýndir  á plús  rásinni (þær  voru reyndar tvær á  dögunum) og síðan mætti  sýna leikina á rás  eitt  að lokinni venjulegri  dagskrá. Þetta er ófremdarástand og verður  svo, meðan    ekki er  skipt  um stjórnendur í Efsatleiti. 

Stöð tvö  greindi því í kvöld ( 22.06.2011) að þar yrðu á næstunni sýndir 300  fótboltaleikir í beinni útsendingu.  Það er gott og blessað. Það er enginn neyddur  til að kaupa áskrift að Stöð  tvö.   Ríkissjónvarpið skákar í skjóli  nauðungaráskriftar. Við, viðskiptavinir  Ríkisútvarpsins,  erum  áhrifalaus gagnvart þessu ofbeldi í dagskrárgerð.

Úr fréttum Stöðvar tvö (20.06.2011) …. renndi fyrir  fyrsta laxi Elliðaánna  þetta sumarið. Menn renna  fyrir  lax, ekki fyrir laxi, þegar þeir  freista þess að  veiða lax.

Molaskrifari lætur það fara  í taugarnar á sér þegar  fréttamenn (oftast íþróttafréttamenn) segja að eitthvað hafi verið eftir bókinni. Úrslitin voru eftir bókinni. Úrslitin voru  eins og  við var  búist , eins og vænst var. Þetta er enskulegt orðalag,sem engin  ástæða   er til að taka upp. Um hvaða bók er annars verið að tala?

Enn einu sinni leyfir Molaskrifari sér að biðja fréttaþuli (Ríkisútvarpsins sér í lagi)  að hlífa okkur við því að heyra   hvað  fréttalesara  finnst um  þær fréttir sem hann les. Það er of algengt að þulir segir okkur með  áherslum  hvort þeim finnst eitthvað sem um er fjallað  vera mikið eða  lítið. Slíkt persónulegt mat á ekki erindi í fréttalestur.

Dótakassinn opnar á Klambratúni í dag , segir dv.is (21.06.2011). Hvað opnar dótakassinn? Dótakassinn opnar ekki neitt. Dótakassinn verður opnaður á Klambtratúni.

Í grein í DV ( 22.06.2011) er fjallað um  sóðaskap  við minkabú í Mosfellssveit.  Búið er  sagt í Helgardal, en á að líkindum að vera Helgadal.  Í  sömu grein er vitbað í bréf   sem skrifað er fyrir hönd íbúa. Þar segir að meðferð á  minkaskít og úrgangi frá búini  hafi: … stofnað heilsu mannfólks, sauðfés, hesta og annarra dýra  á svæðiunu í mikla hættu.  Æ algengara er að  sjá og heyra  hið ranga eignarfall  fés í stað fjár.

Tvö einkennileg orðatiltæki heyrðust í fréttum  Stöðvar tvö (22.06.2011):  Lögmaður  talaði um að  e-ð  væri í brýnni andstöðu við …   Venjulegra  væri að segja í beinni andstöðu við …   Um  annað  var sagt að það væri á fullkominni skjön við…  Það orðalag hefur Molaskrifari ekki heyrt áður.  Óformlega  er sagt að  eitthvað sé á skjön við e- ð  fari í bága við, sé  andstætt.

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Hreint ótrúlegt !

  2. Emil R. Hjartarson skrifar:

    Í RUV,rás eitt var talað við fólk sem er að kvikmynda á Akureyri. Fólkið var ánægt með aðstöðu alla og viðmót fólks þar nyrðra, kvað gott að vinna þarna bæði –og haldið ykkur nú- bæði „vegalengdarlega og móttökulega“

    Það mætti nú orða þetta betur, finnst mér

  3. Haukur Kristinsson skrifar:

    Páll Magnússon er ekki rétti maðurinn sem “Intendant” RÚV. Í slík embætti veljast yfirleitt frábærlega vel menntaðir Kultur- menn, en ekki menn sem hafa einkum áhuga á stórum pallbílum. Þetta er enn eitt dæmið um mikla lágkúru í íslenskri stjórnsýslu, menn vita ekki hvað “quality” er.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>