Ríkissjónvarpið gortaði af því á dögunum að sýna tvo unglingaknattspyrnuleiki frá Evrópu á sama tíma í beinni útsendingu. Nú (23.06.2011) montar sjónvarpið sig af því byrja að sýna Íslendingum ,,langlífustu sápuóperu í heimi”. Það vantar ekki menningarlegan metnað hjá stjórnendum í Efstaleiti.
Oft hefur verið minnst á það í þessum pistlum hvernig auglýsingastofur og auglýsingadeildir komast upp með að segja neytendum ósatt . Í auglýsingum Stöðvar tvö (23.06.2011) og í auglýsingum Ríkissjónvarpsins (24.06.2011) var básúnað að Hagkaup væri að afnema virðisaukaskatt á tilteknum vörutegundum og skorað á ríkið að gera hið sama. Alþingi getur breytt lögum um virðisaukaskatt, afnumið hann , lækkað eða hækkað. Það getur Hagkaup ekki. Þessvegna er auglýsandinn að segja ósatt í þessari auglýsingu. Og er ekki einn um það. Húsasmiðjan auglýsir á sama hátt.
Það er ævinlega slæmt þegar rangt er farið er með orðtök sem eiga sinn fasta sess í málinu. Það var gert í morgunútvarpi Rásar tvö (24.06.2011)Þar var sagt: Þú ert ekki maður á meðal manna, ef þú kannt ekki að planka. Umsjónarmaður átti við, að sá sem ekki kynni að planka, eins og nú er sagt, væri ekki maður með mönnum, – ekki mikill bógur eða merkilegur maður. Þar var líka sagt að ísbúðir opnuðu í Lettlandi, en þar var reyndar verið að vitna orðrétt í Fréttablaðið þar sem segir í forsíðufrétt (24.06.2011): Fyrstu þrjár búðirnar opna í Ríga í Lettlandi í lok júlí. Búðirnar í Lettlandi opna ekki, þær verða opnaðar. Búðir geta ekki opnað eitt eða neitt. Á þessu er hamrað enn einu sinni í veikri von um að dropinn holi steininn.
Í fréttum Stöðvar tvö (23.06.2011) var sagt frá skemmtiferðaskipi,sem lá við bryggju í Sundahöfn í Reykjavík. Stærsta skipið, sem hingað hefur komið í sumar. Fréttamaður sagði skipið 115 brúttótonn að stærð.Átti að vera 115 þúsund brúttótonn. Augljós villa, eða mismæli, sem þulur hefði átt að leiðrétta. Þulur leiðrétti ekki. Heyrði ekki eða var ekki að hlusta.
Í sama fréttatíma Stöðvar tvö var sagt frá varningi,sem er til sölu í gamalli rútu við Deildartunguhver í Reykholtsdal. Um það sagði fréttamaður: … og þar eru hverjar gersemarnar á fætur annarri til sölu. Ja, hérna. Þetta er bara tær snilld, eins og maðurinn sagði um árið.
Í fréttum (?) Ríkisútvarpsins (23.06.2011) var talað um önnur húsnæði. Orðið húsnæði er eintöluorð. Þessvegna hefði átt að tala um annað húsnæði. Ekki önnur húsnæði. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (24.06.2011) sagði reyndur þulur og fréttamaður í fréttayfirliti: Einn af hönnuðum fuglshreiðursins Olympíuleikvangsins í Peking var sleppt úr fangelsi … Þarna hefði átt að segja: Einum af hönnuðum …var sleppt úr fangelsi. Manninum var sleppt úr haldi. Seinna í sama fréttatíma var okkur sagt , að ráðið (fagráð um kynferðisbrot) hefði átt fund með biskup. Ráðið átti fund með biskupi, hefði hér átt að segja. Ráðið hitti biskup að máli. Málfarsráðunautur hefur verk að vinna, sé hann enn að störfum.
Það er undarlegt og óíslenskt orðalag, þegar sagt er að kona hafi hlotið dóm fyrir framan alþjóðlegan dómstól, eins og gert var í í fréttum Ríkissjónvarps (24.06.2011). Betra hefði verið að tala um að alþjóðlegur dómstóll hafi dæmt konuna. Sömuleiðis fannst Molaskrifara það undarlegt orðalag að tala um að kjósa gegn tillögu, þegar verið var að fella tillögu eða hafna tillögu í atkvæðagreiðslu.
Skildu eftir svar