«

»

Molar um málfar og miðla 641

Á Jónsmessumorgni (24.06.2011) bjó  Molaskrifari   sig undir að hlusta um  stund á  morgunútvarp  Rásar  tvö   en var fljótur að flýja,  þegar  boðað var viðtal við sérstaka slúðurfréttakonu  morgunútvarpsins, sem  dreifir  leikaraslúðri  frá Bandaríkjunum yfir hlustendur á föstudagsmorgnum.  Slúðurþættirnir  eru ævinlega mikill ambögusjóður  og makalaust að  Ríkisútvarpið  skuli   reglubundið og markvisst dreifa  efni af þessu tagi. 

Molaskrifari  flúði þá á náðir Bylgjunnar  og heyrði þar viðtal við bæjarstjórann í Garðinum og blaðamann Víkurfrétta um Sólseturshátíðina  sem var í Garðinum um helgina. Bæjarstjóri gat helstu viðburða en sleppti  þó   sólsetursgöngunni frá  Stóra Hólmi í Leiru  að  Garðskagavita á  fimmtudagskvöld.  Það var  skemmtileg.  næstum þriggja tíma ganga  og  ógleymanlegt að sjá   sólina ganga til viðar í vestrinu klukkan fjórar mínútur yfir tólf á miðnætti   þegar Jónsmessunóttin fór í  hönd og gönguhópurinn, líklega um 70 manns, var að koma að Garðskagavita. Óvíða er sólarlagið fegurra en í Garðinum.  Eins og  góðum Sjálfstæðismanni sæmdi notaði bæjarstjórinn tækifærið og skammaði ríkisstjórnina meðan hann sagði hlustendum Bylgjunnar frá Sólseturshátíðinni. Þó það nú væri.

Það kom fram í viðtalinu við Ásmund sveitarstjóra í Garðinum að svolítinn olíuflekk hefði rekið á fjöruna  við gamla vitann. Leitað hefði verið til Umhverfisstofnunar um að hreinsa fjöruna.  Stofnunin  hefði ekki viljað koma nálægt málinu að sögn  sveitarstjóra. Óneitanlega  vakna  spurningar um það hverskonar stofnun Umhverfisstofnun sé orðin. Henni koma umhverfismál greinilega ekki mikið við.  Brunavarnir Suðurnesja  aðstoðuðu við að  hreinsa olíuna úr fjörunni.

Þeir  sem  framleiða svokallaðan Holtakjúkling halda líklega að Íslendingar éti  fleiri  kjúklingabringur ,ef þær  heita  ensku nafni, Royalbringur.  Þeir  sem selja   hamborgara í  sjoppum sem heita Metro  eru  haldnir   svipaðri  firru þeir  bjóða  upp á  Big Royal hamborgara, DC  Double Cheese. Varla verður sagt að  hugmyndauðgin sé mikil eða  sjóndeildarhringurinn víður hjá slagorðasmiðum þessara fyrirtækja.  Enska er ágæt til síns  brúks, en  draga má í  efa  að hún hafi lystaukandi áhrif.

Þegar rætt er um auglýsingar á  ensku, þá kemur í hugann að  í  Ríkisútvarpinu er í auglýsingum talað um bed and  breakfast.  Þar  eiga allar auglýsingar að vera á lýtalausri íslensku. Kannski heldur auglýsingadeildin að þetta sé íslenska. Þar á  bær hafa menn líklega aldrei heyrt um hina  prýðilegu þýðingu, ból og biti, sem Molaskrifari man ekki betur  en sé ættuð frá Færeyjum.

Í fréttatíma Ríkissjónvarpsins  (24.06.2011) var fjallað um kynferðislegt ofbeldi,sem nemendur Landakotsskóla sættu af hálfu starfsmanna kaþólsku kirkjunnar. Sagt var:  Meint kynferðisofbeldi starfsmanna kaþólsku kirkjunnar hér á landi hafa komist í hámæli eftir að  Fréttatíminn …. Ofbeldi er eintöluorð, – ekki til í fleirtölu. Þessvegna hefði  átt að segja, að ofbeldi hefði komist í hámæli….

Nú er það orðið svo  í  Ríkisútvarpinu að orðið Ríkisútvarp er bannorð. Ef  þulir eða  fréttamenn missa út úr sér orðið Ríkisútvarpið, leiðrétta þeir sig  strax  eins og þetta hafi verið  mismæli og  segja RÚV.  Þetta hljóta að vera fyrirskipanir æðstu stjórnenda Ríkisútvarpsins. Þeim eru mislagðar hendur um margt.

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sæll Þorkell, ég tók reyndar eftir þessu líka. Má ég ekki nota þessar línur frá þér, undir nafni eða nafnlaust. Vinsamlega svaraðu mér á esg1@simnet.is

  2. Þorkell Guðbrands skrifar:

    Tók eftir þessu áðan:

    http://www.visir.is/starfsmadur-lyfja-og-heilsu-dro-ad-ser-fe/article/2011110629171

    Þegar maður er kominn á áttræðisaldur verður maður sjálfsagt nöldrunargjarn og leiðinlegur. En fram eftir öllum aldri vandist ég því að það væri talað um að menn „drægju sér fé“ ef þeir tóku fé ófrjálsri hendi, sem þeir höfðu (oftast) umsjá með. Nú sér maður varla talað um annað en að „draga AÐ sér fé“ eins og í þessari frétt.

    Manni virðist sem nú til dags ruglist fólk oft á „að“ og „af“. Fólk talar um að „leita af“ þessu eða hinu, þegar manni finnst að tala ætti um að leita að einhverju. Svo er þetta að hafa gaman af og þykja gaman að, sem virðist vefjast fyrir fólki. Í rituðu máli, einkum í bloggheimum, sýnist manni að þessu hafi verið snúið á hvolf.

  3. Eiður skrifar:

    Jú,jú. Ekki nógu nákvæmt.

  4. Lilja skrifar:

    Eiður – er það ekki einn og sami maðurinn sem þú ýmist nefnir bæjarstjóra eða sveitarstjóra í Garðinum?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>