Það versta er, að Færeyingar eru sex sætum fyrir ofan okkur, sagði íþróttafréttamaður Ríkisútvarpsins (29.06.2011) um lista þar sem þjóðum heims er raðað eftir getu landsliða þeirra í knattspyrnu. Í þessum orðum íþróttafréttamanns þessarar ríkisstofnunar felst einstakur þjóðrembingur og hroki. Íslendingar eru lélegir í knattspyrnu um þessarar mundir. Færeyingar eru betri. Leiðin til að bæta það er ekki sú að gera lítið úr Færeyingum eins og Ríkissjónvarpið lét sér sæma að gera.
Molaskrifari vonar fyrir hönd þjóðarinnar og Landsvirkjunar að glæst framtíðarspá um tekjur fyrirtækisins á komandi árum,sem birt var í fréttum Stöðvar tvö (28.06.2011) rætist. Sami spámaður og við sáum á skjánum heimsótti Færeyjar fáum vikum fyrir hrun og flutti erindi um ágæti og styrk íslenska bankakerfisins. Þar fór sem fór. Ekki stóð þar steinn yfri steini er upp var staðið.
Fróðlegt er að bera saman leiðara Fréttablaðsins og Morgunblaðsins (29.06.2011) um efnahagsástandið í Grikklandi. Ritstjóri Fréttablaðsins segir: ,,Ríkissjóður Grikklands var settur á hliðina með útgjöldum, sem tekjurnar stóðu ekki undir og óhóflegum lántökum”. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins segir: ,,Og nú eru Grikkir með verklega úttekt á því hvernig áratugs evruvæðing hefur reynst þeim. Og ekki er upplitið gott”. Þegar Morgunblaðið kennir evrunni um efnahagsástandið í Grikklandi er það eins hið fornkveðna, þegar árinni kennir illur ræðari Það var ekki evran, sem kom Grikklandi á vonarvöl, heldur grískir stjórnmálamenn. Við ættum að þekkja handtök misviturra stjórnmálamanna núverandi og fyrrverandi á mikilvægustu peningastofnunum landsins og efnahagslífinu í heild. .
Ekki var það beinlínis rangt, þegar sagt var frá stóru farþegaskipi í tíufréttum Ríkissjónvarps (28.06.2011), sem ekki gat lagst að bryggju í Sundahöfn vegna hvassviðris, – að skipið lægi út á Faxaflóa. Myndir með fréttinni báru með sér að skipið lá norður af Engey, ekki úti á Faxaflóa. Einhver mundi ef til vill segja að skipið hefði legið í mynni Kollafjarðar eða undan Kjalarnesi.
Í sexfréttum Ríkisútvarpsins (28.06.2011) sagði íþróttafréttamaður: … þegar félagaskiptaglugginn opnar 15. júlí. Þeir mega eiga það hjá Ríkisútvarpinu, að yfirleitt eru menn þar sjálfum sér samkvæmir í vitleysunni. Hvað opnar félagaskiptaglugginn svonefndi? Hann opnar ekki neitt. Hann opnast. Þetta er ekkert óskaplega flókið.
Spjall þeirra Egils Helgasonar og Guðjóns Friðrikssonar í Fossvogskirkjugarði sem Ríkisjónvarpið sýndi (28.06.2011) var svo sem ágætt. En þetta var líklega í þriðja sinn sem þetta efni var á boðstólum. Greinilega hart í ári, þegar ekkert betra er að bjóða áhorfendum á besta tíma kvölds.
Hvað veldur því að sömu, fáu, lögmennirnir birtast aftur og aftur í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna?
Skildu eftir svar