Get ekki orða bundist. Var að horfa á auglýsingu um ágæti íslenska lambakjötsins. Ábyrgðaraðili auglýsingarinnar er vefsvæðið lambakjot.is Að baki því standa væntanlega íslenskir bændur. Boðskapur þessarar auglýsingar er skelfilegur, en kannski er hann bara tímanna tákn.
Það er verið að segja fólki að það sé í lagi að ljúga og svíkja til að hafa sitt fram. Fyrir rúmum mánuði skrifaði ég nokkrar línur um þessa auglýsingu og endurbirti þær hér.
Það er svo önnur saga að á forsíðu vefsvæðisins lambakjot.is eru að minnsta kosti tvær málvillur.
Auglýsing um ágæti íslenska lambakjötsins, sem nú birtist oft á skjánum hefur orðið mér umhugsunarefni. Þar stendur maður við kjötborð, bendir á lambakjöt í borðinu og segist ætla að kaupa það. Þar með er kominn á samningur milli hans og afgreiðslumannsins eða verslunarinnar.Þá kemur aðvífandi kona sem greinilega væntir sín, hún ágirnist kjötið líka. Hún lætur smápeninga detta á gólfið og horfir biðjandi augum á manninn og biður hann að hjálpa sér að tína peningana upp, – væntanlega vegna þess að hún á ekki auðvelt með að beygja sig.Maðurinn bregst vel við og tínir upp peningana og réttir henni. Þá er hún búin að kaupa kjötið, sem hann varð fyrri til að biðja um. Konan heldur svo sigri hrósandi á brott.Hver er boðskapur þessarar auglýsingar (skilaboð segja auglýsingastofur líklega að enskri málvenju) ? Er ekki verið að segja okkur að það sé í lagi að ljúga og svíkja til að hafa sitt fram? Ég get ekki skilið þetta á annan veg.Þótt konur séu aldrei fallegri en þegar þær bera barn undir belti þá finnst mér þetta bæði ógeðfelld og ómerkileg auglýsing.Hvað er verið að segja börnum okkar með þessu Hugsi nú hver fyrir sig.
Skildu eftir svar