«

»

Molar um málfar og miðla 649

Með ruslpóstinum barst Molaskrifara auglýsingabæklingur fyrir svokallaða  go-kart braut í Garðabæ. Ekki kann  Molaskrifari  gott íslenskt  orð fyrir þessa  smábíla  og væri gaman að heyra   tillögur um slíkt. í bæklingnum  segir, að brautin sé stærsta, fullkomnasta, fjölbreyttasta og  hraðskreiðasta go-kart braut Íslandssögunnar.  Ekki lítið! Nú er Íslandssaga  svokallaðra  go-kart  brauta  í mesta lagi  fáein ár, en það er auðvitað af og  frá  að braut  geti verið  hraðskreið. Braut er hvorki hægfara né  hraðskreið. Í sama  bæklingi  er auglýst, og enn upp á  ensku,  fyrsta alvöru jet-ski leiga á Íslandi.  Molaskrifari  minnist þess að hafa  heyrt  orðið sæþota um þessi  fullorðinsleikföng. Það er  óþarfi að nota ensku, þegar íslenskt  orð er til staðar. Prýðilegt orð meira að segja.

Lesandi sendi Molum eftirfarandi og vitnar í Moggablogg:

Lögreglan á Sauðárkróki tekur fram að atvikið endurspeglar á engan hátt ástandið á landsmóti hestamanna um helgina sem hefur farið mjög vel fram. Lögregla hefur þurft að hafa lítil afskipti af fólki.“ (Feitletrun mín) úr bloggi Þórðar Björns Sigurðssonar. (Ímynda mér, að maðurinn beygi nafn sitt á þennan hátt. En ég vil leyfa mér að skíra manninn upp og skrifa Þórðar Bjarnar Sigurðarsonar.)

Á þetta ekki að hljóða svo:

Lögreglan á Sauðárkróki tekur fram, að atvikið endurspegli ekki á nokkurn hátt ástandið á Landsmóti hestamanna um helgina, sem hefur farið mjög vel fram. Lögreglan hafi ekki þurft að hafa mikil afskipti af fólki. Mér finnst síðari málsgreinin ekki vera kórrétt íslenska. A.m.k. samþykkir máltilfinning mín ekki þessa framsetningu, þótt ég skilji, hverju maðurinn er að koma frá sér.  Molaskrifari er sendanda sammála.

Dálítið undarlegt orðalag er í frétt í Morgunblaðinu  (05.07.2011). Þar segir frá komu togara til Hafnarfjarðar  með um 900  tonna afla  meðferðis. Þarna er orðinu meðferðis ofaukið.  Betra  hefði verið að segja  að togarinn hefði komið til Hafnarfjarðar með 900 tonn af karfa. Skip sem koma  til hafnar með afla hafa hann ekki meðferðis.

Undarlega ómerkilegur er útúrsnúningur  Morgunblaðsins á orðum utanríkisráðherra um  samninga um sjávarútvegsmál við Evrópusambandið. Blaðið heldur blekkingaleiknum áfram í leiðara  í dag (05.07.2011).  Það er bót í  máli, að æ færri taka nú mark á Morgunblaðinu. Það er   hvorki virðulegt dagblað eða trúverðugt  dagblað lengur. Blaðið hefur smám saman verið að breytast í málpípu þröngra sérhagsmuna þeirra fáu ofurríku, sem standa  straum af tapinu á útgáfunni.  Því er hér við að bæta að formaður Framsóknarflokksins hefur nú gengið í lið með Morgunblaðinu og þykist ekki skilja mælt mál, þegar utanríkisráðherra  talar um ESB. Kannski skilur sá sem  fer fyrir Framsókn móðurmálið ekki nægilega vel.

Í auglýsingum alþjóðlegra öfgasamtaka, sem kenna sig  við  dýravernd var sagt að Íslendingar stunduðu hvalveiðar   til að  ala erlenda  ferðamenn á hvalkjöti.  Þetta eru auðvitað ósannindi og þessvegna var rétt að taka  auglýsingarnar niður í flugstöðinni í Keflavík. Nú hefur einn  af  þingmönnum  Samfylkingarinnar  tekið málið að sér og vill greinilega að  þessi ósannindi blasi  við gestum sem  koma  til landsins. Gott er að eiga  góða að. Hvar er virðingin fyrir staðreyndum?

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir , Kristinn. Fínt orð, en hefur farið framhjá mér. Rámar þó í að hafa heyrt það.

  2. Kristinn R. Ólafsson skrifar:

    Það er langt síðan farið var að kalla þetta körtubraut.
    Sjá t.d. : http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=620149

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>