«

»

Molar um málfar og miðla 650

 

Það er engu líkara en svolítið sé að rofa til hjá  Ríkisútvarpinu í Efstaleiti, ef marka má viðtal við Sigrúnu Stefánsdóttur  dagskrárstjóra í Morgunblaðinu (05.07.2011). Dagskrárstjórinn gerir sér grein fyrir að   gengið hefur  verið  fram af  öllu venjulegu fólki  með óhóflegu magni íþróttaefnis og með því að henda  fréttatímum til í dagskránni eftir því sem íþróttadeildinni þóknaðist. Menn eru líka að gera sér grein fyrir því að efni eins og íslenskar  kvikmyndir á ekki að vera á dagskrá undir miðnætti, heldur  fyrr á kvöldinu. Allt er þetta  til  bóta og vonandi  er sérstök íþróttarás  fyrir fótboltafíklana á næsta leiti.  Allt eru þetta atriði sem aftur og  aftur  hafa verið gagnrýnd í Molum.

 Molaskrifari  var heldur  fljótur á sér, þegar hann skrifaði þetta.  Miðvikudagskvöldið 6. júlí  bauð Ríkissjónvarpið upp á  tvo bandaríska  læknaþætti í röð strax að loknum fréttum. Hvernig  dettur  fólki  þetta í hug ?  Fáránleg dagskrárgerð og er þá vægt til orða tekið.  Kvikmynd  Friðriks Þórs  Á köldum klaka hefði auðvitað  átt að sýna strax   að loknum fréttum , en ekki  klukkan hálf ellefu.  

Ekki veit Molaskrifari betur en það sé  enn  regla, að auglýsingar í Ríkisútvarpinu skuli vera  á lýtalausri íslensku. Í  skjali frá árinu 2010 sem ber  hið virðulega heiti: Málstefna Ríkisútvarpsins segir orðrétt: Auglýsingar skulu almennt vera á íslensku en heimilt er að erlendir söngtextar séu hluti auglýsingar. Hversvegna er auglýsingadeild  liðið að brjóta þessar reglur nánast á hverjum einasta degi?  Nýjasta dæmið er auglýsing  frá  lánafyrirtæki,sem kallar sig Kredia:   Þar segir á   ensku:  Kredia proud sponsor of Besta útihátíðin. Er þessi auglýsing ekki ætluð íslenskum áhorfendum? Hversvegna er hún á ensku?  Þá  heyrði Mlaskrifari ávæning  af  auglýsingu (06.07.2011) frá Grillhúsinu  á  Rás tvö.  Sú auglýsing  var að hálfu leyti á ensku.  Á auglýsingadeild  Ríkissjónvarpsins  að líðast  að vinna markviss spellvirki á  tungunni? Molaskrifari  segir : Nei.  Hversvegna  er þessi stofnun ekki háð  eftirliti?   Reynslan sýnir að stjórnendur Ríkisútvarpsins þurfa aðhalda. Það er ekki fyrir hendi  eftir að Útvarpsráð var lagt  niður.  

Í Víðsjá í Ríkisútvarpinu  (05.07.2011) tók lektor við æðstu menntastofnun þjóðarinnar svo til orða , að tilölulega fáir  íslenskir  höfundar hefðu lagt sig niður við að skrifa smásögur. Þetta  þótti Molaskrifara undarlegt orðalag. Líklega var átt  við , að tiltölulega fáir íslenskir rithöfundar hefðu lagt sig eftir, eða lagt  rækt  við að skrifa  smásögur.

Molaskrifari  leyfir sér að birta  eftirfarandi  athugasemd G. Þorkels Guðbrandssonar, enda þótt hún hafi birst í athugasemdum við þessi skrif:

,,Fólki gengur misvel að átta sig á beygingum í íslensku. Kannski er það eðlilegt, málið er að hluta til fornt og mörg orð og orðtæki miðuð við liðna tíð og horfna atvinnuhætti og þjóðfélag nútímans því tengslalaust við upprunann. Samt sem áður hlýtur slíkt að þekkjast víðar og þótt ég þekki það ekki persónulega má ætla, að fleiri málsvæði glími við ámóta vanda. En ekki eru öll orð í íslensku flókin í beygingu og ég hélt satt að segja að það væri svo að fólk, sem komið er til „vits og ára“ eins og sagt er, skriplaði ekki á því að beygja orðið háls. En það tekst blaðamönnum Morgunblaðsins í tilvísaðri grein, sem er reyndar um afar áhugavert viðfangsefni.
Í annarri grein segir frá Afrískum manni, sem dæmur var í 99 ára fangelsi fyrir nautgripaþjófnað. Fyrirsögnin er að mig minnir; „Dæmdur fyrir að stela beljum“. Nú er þetta í sjálfu sér ekki rangt mál. Hitt er aftur annað, sem mér sem gömlum manni er ami að,  þegar fólk er að kalla ær og kýr skammaryrðunum beljur og rollur. Ég þekki margt gott fólk til sveita, hamingjunni sé lof fyrir það, og því finnst mörgu ógott þegar jafnvel fólk, sem hefur lifibrauð sitt af þessum ágætum skepnum, kallar bústofninn sinn þessum heitum. En innst inni veit ég að ástæðan fyrir þessu er sú, að fólk kann ekki að beygja orðin ær og kýr og skólarnir hafa gefist upp við slík verkefni.” –  Kærar þakkir  Þorkell.

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Réttmæt ábending, Ingibergur.

  2. Ingibergur skrifar:

    „Geimferjan Apollo fór í sína hinstu för í dag“ vona að þessi orð Páls útvarpsstjóra verði ekki áhrínisorð því samkvæmt mínum skilningi á enginn afturkvæmt úr sinni hinstu för.

  3. Már K skrifar:

    Ef maður er ekki viss með beygingu orða er hægt að fletta þeim upp á Beygingarlýsing íslenskur nútímamála: http://bin.arnastofnun.is/

  4. Eiður skrifar:

    Þakka þér ummælin, Jón K. Ef þú lest aðeins betur þá sérð þú að umrætt orð er í aðsendum pistli. Ekki frá mér.

  5. Jón K skrifar:

    Bestu þakkir fyrir góða pistla.

    Enginn er þó fullkominn.
    Þú ritar t.d. orðið „afrískur“ með stórum staf inni í miðri málsgrein, sem er rangt.

    Með góðri kveðju,
    Jón K

  6. Baldur Ragnarsson skrifar:

    Sammála þessu með íþróttarásina og einnig með sýningartíma amerísku sápuþáttanna. Íþróttafréttir eru líka fréttir og eiga ekki að sitja á hakanum vegna endursýninga gamalla kvikmynda. Þær má sýna í staðinn fyrir sápurnar og íþróttafréttirnar strax á eftir tíufréttum. Íþróttarás væri þó besti kosturinn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>