«

»

Molar um málfar og miðla 651

Lögreglan er  sögð mútuþægin, sagði fréttamaður Stöðvar  tvö (07.07.2011) og átti  við lögregluna í Taílandi. Þetta hljómaði  ekki rétt í eyrum Molaskrifara. Betra  hefði verið að segja: Lögreglan er sögð mútuþæg. Eða: Lögreglan er sökuð um mútuþægni.    

 Úr mbl.is (06.07.2011): 365 miðlar ehf. eignuðust 47% hlut í Hjálmi, aðaleiganda útgáfufélagsins Birtíngs, í janúar síðastliðinn.  Í janúar síðastliðnum  ætti þetta að vera.

  Stafsetningarorðabækur, – sem aðrar orðabækur,  eru þarfaþing. Ef  fréttaskrifari DV hefði  flett upp í  orðabók hefði hann ekki tvisvar sinnum skrifað heiðskýr, – heldur heiðskír.

Fyrrum  ráðherra  skrifar grein í Morgunblaðið (06.07.2011)  þar sem hann talar um sögulegar sættir í deilum Frakka og Þjóðverja og segir:  Undirstöður Evrópusamvinnunnar bera merki þessara sögulegu  sætta.  Molaskrifari er á því að hér  hefði átt að segja : … bera merki þessara sögulegu sátta.

Úr mbl.is (06.07.2011): … að hlutfallið á milli lengd fingranna ráðist af kynhormónum í fóstrum.  Hér ætti að standa : … hlutfallið milli lengdar  fingranna.  Villan er  reyndar tvítekin í fréttinni.

Kristian Guttesen þakkar  málfarspistlana og segir:
Ég sendi þér hér dæmi um málnotkunarvillu hjá Fréttablaðinu, sem að öllu jöfnu er annars vel prófarkalesið. Í orðabókinni segir:
reyta -u KVK
svolitlar eigur (t.d. eignir látins manns)
hirða reytur e-s
rugla saman reytum (reytunum/reytum sínum) taka saman, giftast.
Aftan á Fréttablaðinu í morgun (6. júlí 2011) stendur að fjölskyldur tveggja handboltakappa ætli að „rugla saman reytum þegar keppnistímabilið hefst…“

Molaskrifari  þakkar sendinguna. Þetta verður greinilega  mjög sérstætt hjónaband !

  Kristinn H. Gunnarsson fv. alþingismaður gerir alvarlegar athugasemdir við fréttaflutning  Ríkisútvarpsins á  bloggsíðu sinni og segir: ,,Almennt er ástæða til þess að hafa verulegar áhyggjur af vaxandi óvönduðum fréttaflutningi sem einkennist meira af skoðunum sem fréttamaðurinn vill koma á framfæri en hlutverki hans að miðla upplýsingum og sjónarmiðum.

Hrunið opinberaði  þjóðinni að víða í samfélaginu voru brotalamir. Þar má nefna stjórnmálin, viðskiptalífið og embættismenn, en ekki hvað síst bera fjölmiðlarnir mikla ábyrgð. Enn sem komið er ekki að sjá að þeir eða einstakir fréttamenn séu farnir að líta í eigin barm. Ástandið á Ríkisútvarpinu er gleggasta dæmið um það.”

Molaskrifari var að lesa einkar athyglisverða grein eftir Jón Baldvin Hannibalsson.  Jón var beðinn að  skrifa um bókina  Sovét Ísland eftir   Þór Whitehead prófessor í frjálshyggjuritið Þjóðmál.  Ritstjórinn hafnaði greininni á þeim forsendum  að  hún væri árás á  hægri stefnu og því  tímaritinu ekki þóknanleg.  Sovét hvað, spyr maður ?   Þar mátti ekkert  birta,sem ekki var valdhöfum þóknanlegt. Þetta var svolítið Sovét Ísland.    Grein Jóns Baldvins má lesa hér:

http://jbh.is/default.asp?ID=240

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>