Blessunin hún Björk er sannarlega óþreytandi að segja okkur til um eitt og annað. Jafnan er rithöfundurinn geðþekki (eins og nú er í tísku að segja um alla) Andri Snær við hlið hennar, svona til trausts og halds, ef svo ólíklega vildi til að hún þyrfti á hjálp hans að halda, eða henni yrði orða vant. Til þess hefur sjálfsagt aldrei komið. Aldrei hefur þjóðin þurft jafnmikið á heilræðum að halda eins og einmitt nú þessa dimmu daga í vetrarbyrjun.
En hvernig er það, greiðir ekki Björk skatta af sínum góðu tekjum hér á landi? Er hún ekki íslenskur skattþegn ? Það hlýtur að vera. Það getur ekki verið satt að einu skattarnir sem hún greiði hér á landi séu fasteignagjöld af litlu húsi við Ægissíðuna í grennd við gömlu grásleppuskúrana. Það hljóta að vera hrein ósannindi.
Gamli geisladiskurinn hennar Gling gló með Guðmundi Ingólfssyni (man ég það ekki rétt?)hefur mér alltaf fundist frábær. Aðra diska hef ég ekki enst til að hlusta á til enda en það er bara til marks um minn lélega tónlistarsmekk.
Björk vill að Ísland gangi í ESB | |
Skildu eftir svar