«

»

Molar um málfar og miðla 665

Það voru hárrétt viðbrögð hjá   Ríkissjónvarpinu að sýna beint   síðdegis  á föstudag frá vettvangi hinna  skelfilegu atburða í Osló. Það ber að þakka.  Frásögn af málinu í fréttatíma var  sömuleiðis  með ágætum. Ríkissjónvarpið  hefði hinsvegar átt að gera meira. Það hefði átt að sýna beint frá  blaðamannafundi  þeirra Stoltenbergs forsætisráðherra og  Storberget  dómsmálaráðherra  seinna um kvöldið. Það gerðu BBC og fjölmargar aðrar stöðvar. Jens  Stoltenberg ávarpaði norsku þjóðina  áður en blaðamannafundurinn hófst. Við hefðum átt að fá að  sjá það, en  ekki þessa venjulegu  amerísku dellumynd, sem Ríkissjónvarpið býður okkur alltaf á  föstudagskvöldum. (Myndin fær  5.8 af 10  í einkunnagjöf  Internet Movie  Database) Ef einhvern tíma  var ástæða  til að hafa seinni fréttir á föstudagskvöldi var það  föstudagskvöldið 22. júlí. Enn einn dómgreindarbresturinn hjá stjórnendum Ríkisútvarpsins.

Lýsing  blaðamanns VG, Jons Magnus á vettvangi í Noregi á vef  breska blaðsins Guardian er mögnuð:
www.guardian.co.uk/world/audio/2011/jul/22/oslo-bomb-reaction-jon-magnus

Hversvegna tala  fréttamenn sífellt um síðasta  vor, síðasta vetur ?  Af hverju heyrum  við nú orðið nær   aldrei  sagt; í fyrra vor  eða í fyrra vetur eða í fyrra?  Síðastliðið haust er  betra en síðasta haust. Rétt eftir að Molaskrifari  hafði sett þessar línur á skjáinn barst honum eftirfarandi  frá áhugamanni um vandað málfar: ,,Ég hef tekið eftir m.a. í útvarpi að það er eins og margir séu búnir að gleyma að hægt er að segja „í fyrra“ og tala í þess stað ævinlega um „síðasta ár“. Og þetta heldur áfram þó að ekkert hafi orðið úr heimsendaspánum sem áttu að rætast nú ekki alls fyrir löngu! Þannig skrifar nú einn þingmannanna í bloggi sínu: „Síðasta vetur fór fram töluverð umræða um …“ en miklu liprara orðalag hefði verið: Í fyrravetur fóru fram…

   Þó að líklega sé hæpið að telja þetta kolvitlaust dettur mér í hug hvort þú viljir nokkuð minna á að hægt er — og stundum betra — að segja: í fyrra, í fyrrahaust, o.s.frv. Þessi ábending er  þegin með þökkum og vonandi taka þeir þetta til sín sem þurfa.  

 

Úr dv.is (21.07.2011): Fjármálastjóri Þjóðarbókhlöðunnar segir frétt Pressunnar um að veikindi starfsmanna hafi verið rekin til rottuskíts ekki vera á rökum reista. Hér  er ekki allt sem skyldi. Veikindin  eru  ekki rekin til  heldur rakin til.   Ritstjóri  dv.is  á að reka svona rugl ofan í þann sem skrifar.

Óneitanlega undarlegt fréttamt hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins  að vera  með   ómerkilegt  borgarstjórnarpex úr  Reykjavík sem fyrstu frétt í  seinni fréttum  sjónvarps (21.07.2011) en ekki    samkomulagið um fjárhagsaðstoð  við Grikkland  Pólitískt  pex þeirra Hönnu Birnu og Dags var akkúrat engin frétt.  

Live long and prosper, sagði umsjónarmaður  Rásar tvö  við hlustendur  Ríkisútvarpsins (22.07.2011). Hann var að óska  okkur hlustendum langlífis og velfarnaðar, sem er auðvitað fallega gjört. En hversvegna að sletta á okkur ensku?

Of oft  heyrist  föstum orðtökum ruglað saman eins og gerðist í  sjöfréttum Ríkisútvarpsins (22.07.2011) þar sem talað  var um að ráða af lífi.  Þar  ruglaði fréttamaður  saman    orðtökunum að  ráða af dögum  og að taka af lífi. Ef einhver með þokkalega máltilfinningu læsi  handrit  fréttamanna yfir áður en þau  eru lesin fyrir okkur, þyrftum við ekki að hlusta á svona.

Ambagan samkvæmt lögreglunni lifir  góðu lífi í Efstaleiti og var á sínum  stað í sjöfréttum (22.07.2011)  Ríkisútvarpsins. Þessi  ambaga  er líka  viðloðandi í fréttum á Stöð  tvö. Þar var  (22.07.2011) sagt: Samkvæmt  slitastjóra. Betra hefði verið og skýrara að segja: Að sögn slitastjóra.

Auglýsingamennskan    í  Ríkisútvarpinu er komin á það stig  að næstum ógerlegt er að greina milli dagskrár auglýsinga um  matreiðsluþáttinn Grillað og  auglýsinga  frá útgefanda bókar eftir matreiðslumennina, sem  koma fram í þættinum og   heitir bókin auðvitað  Grillað.  Það er sömuleiðis illþolandi hvernig  Ríkissjónvarpið sífellt  brýtur lög með því að auglýsa  áfengi og   svo er  auglýsingum laumað með  allskonar þáttum og kvikmyndum utan  auglýsingatímanna.  Þetta eru ólíðandi vinnubrögð  hjá þessari  þjóðarstofnun, sem nú er rekin eins og einkahlutafélag.

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. vfs skrifar:

    Á mbl.is (23.7.2011) er frétt ber sem yfirskriftina „Kærum á hendur Gunnari vísað frá“.

    Fréttin er bæði röng og misvísandi. Fréttaefnið er að ríkissaksóknari taldi ekki grundvöll fyrir frekari rannsókn málsins og tilkynnti Gunnari því um lok hennar. Ríkissaksóknari gaf því aldrei út ákæru og hvað þá að henni hafi verið vísað frá af dómstólum eins og fyrirsögnin gefur til kynna.

    Ef til vill vildi fréttamaðurinn koma því á framfæri að „ásökunum“ kvennanna hafi verið vísað frá. Stór munur er þar á þar sem ákæra er aðeins gefin út ef meiri líkur en minni eru á sekt sakbornings.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>