«

»

Molar um málfar og miðla 668

Glöggur lesandi benti  á  eftirfarandi í dv.is (22.07.2011): Þess að auki tjáði hann sig mikið í færslum hlekkjaðar við sænskar fréttasíður, og segir: Undanfarið hef ég aðeins verið að rekast á þetta: „Þess að auki….“ í stað „þar að auki“.Sjá dæmi neðarlega í þessari frétt: http://www.dv.is/frettir/2011/7/22/grunadur-um-hrydjuverkaaras-i-noregi/
Þetta er líklega í þriðja skiptið sem ég sé svona tekið til orða og stingur jafn mikið í augun og þegar fyrrverandi þjónustufulltrúinn minn í bankanum skrifaði „greiðslubyrgði“ í tölvupósti til mín.  Molaskrifari þakkar sendinguna. Fleira er athugavert í þessari frétt. Tyrifjorden  er sagt fjörður en er  stöðuvatn eins og  hefur  komið rækilega fram í fréttum.

Egill benti á eftirfarandi: ,,Óvíst er með tvær fyrstu ferðir Herjólfs á morgun sunnudaginn 24. júlí vegna spár um ölduhæða í Landeyjahöfn.
Þetta stendur á mbl.is núna  24. júlí 2011.
Hvað er ölduhæði eiginlega? Veit það einhver?”  Molaskrifari telur ólíklegt að nokkur viti þetta, – utan Hádegismóa.

Af fréttavef Ríkisútvarpsins (24.07.2011): Nafnlausir heimildamenn í bandaríska stjórnkerfinu … Ekki  þykir Molaskrifara líklegt að mennirnir hafi verið nafnlausir. Betra hefði verið að  segja:  Ónafngreindir heimildarmenn, –  ekki heimildamenn

Undarleg ambaga  er í undirfyrirsögn á dv.is (25.07.2011): … enda tölum við sannleikann. Þetta ætti auðvitað  að vera: … enda segjum við sannleikann. Ótrúlegt.

Ekki virðist það (23.07.2011) hafa hvarflað, að Ríkisútvarpinu eða umsjónarmanni þáttanna ,,Risarnir falla” að leiðrétta eða  biðjast afsökunar á  alvarlegri rangfærslu  í fyrri þættinum. Þar var sagt að Noregur  hefði hafnað aðild að EES á áttunda áratug  fyrri aldar!

Það var í sjálfu sér góðra gjalda vert  hjá  Ríkissjónvarpinu, að sýna    Jackie Chan mynd  (22.07.2011)  sem Molaskrifari sá reyndar ekki . En hvernig væri að  Ríkissjónvarpið sýndi okkur eins og eina  og eina   ,,alvöru” kínverska kvikmynd. Þar er af nógu að taka. Ensku heitin á nokkrum  kínverskum úrvalsmyndum  eru :  To Live, Farewell My Concubine, Shower, Beijing Bicycle, Together, The Road Home, The Little Seamstress, Raise the Red Lantern, In the Mood for Love og  Blind Shaft.  Hægt  væri að  nefna  margar fleiri  fyrsta flokks  myndir frá Kína.  

Það var   fínt að endurnýja gömul kynni við Karlakórinn Heklu , myndina hennar  Guðnýjar Halldórsdóttur á laugardagskvöld. Hún stendur svo sannarlega enn fyrir sínu og   svo var ekki verra að hún var sýnd á  kristilegum tíma.  Molaskrifari  sá   myndina í Osló 1996  eða  þar um bil og uppgötvaði að Norðmenn hlógu alveg á  sömu stöðum og Íslendingar.  Molaskrifari fær ekki betur heyrt og sé en íslenska kvikmyndin á sunnudaginn kemur verði einnig sýnd á skikkanlegum tíma.

Oft er gaman að hlusta á þætti útvarpsmannsins   langreynda Jónasar Jónassonar á sunnudagsmorgnum í Ríkisútvarpinu. Einkennilegt  þótti Molaskrifara þó að heyra Jónas  (24.07.2011) í ágætum pistli þar sem kýr komu við sögu alltaf kalla þær  beljur. Molaskrifari var ekki mörg  sumur í sveit, en nógu mörg til þess að honum var kennt að  kalla kýr ekki beljur, nema þá helst, ef þær  voru að gera einhvern óskunda.

Í frétt um þyrluslys  á fréttavefnum mbl. is.sagði: Orsök slyssins eru enn óljós. Orsakirnar eru óljósar . Og: … þyrla af gerðinni Black Hawk flaug í björgunaraðgerðir að þyrluslysi sem varð 16. júlí.  …flaug í björgunaraðgerðir ?  Undarlegt orðaleg Af hverju  ekki, –  var við  björgunaraðgerðir vegna þyrluslyss?

Sá grunur læðist að Molaskrifara, að alls óreyndir  nýliðar í sumarafleysingum séu  settir á næturvaktir fréttastofu Ríkisútvarpsins. Þeim sagt að skrifa og lesa fréttir, en  yfirmennirnir  sem bera ábyrgð fari  heim að sofa. Málfarsráðunautur gengur ekki næturvaktir og virðist raunar ekki hafa sig mikið í frammi á daginn  heldur. Sé þetta rétt, eru það óafsakanleg vinnubrögð.

  Til að fá inni  með grein  á leiðaraopnu Moggans þurfa menn að vera á móti  ESB.  Í dag (23.07.2011)  eru þar tvær greinar gegn  ESB. Önnur er eftir   ungan (gamlan þó í hugsun) Framsóknarþingmann, sem einu sinni var þingmaður VG. Hin er eftir  fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem birt hefur langa greinaröð gegn  ESB. Molaskrifari þekkir tvo menn,sem lesið hafa allar greinar ráðherrans fyrrverandi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>