Það hefur verið góð tilbreyting að undanförnu að sjá í Ríkissjónvarpinu fallegar myndir af íslenskum gæðingum á heimsmeistaramótinu í Austurríki í staðinn fyrir sífellda boltaleiki alla daga.
Í fréttum Ríkisútvarpsins (03.08.2011) kom fyrir sögnin að ánafna en hún merkir að arfleiða að einhverju. Sögnin hefur veika beygingu. Því var ekki rétt að segja ánefndi safninu, rétt hefði verið ánafnaði safninu. Í sama fréttatíma var sagt: Brennisteinsvetni getur skaðað slímhúðir í augum og öndunarvegi … Hér hefði Molaskrifara fundist eðlilegra að nota eintölu og segja: Brennisteinsvetni getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Þetta var leiðrétt í seinni fréttatímum.
Stundum eru fréttamönnum vísvitandi eða óviljandi gefnar rangar upplýsingar. Eitthvað er látið ósagt, einhverju sleppt, sem skiptir höfuðmáli í fréttinni. Í seinni fréttum Ríkissjónvarps (02.08.2011) var fjallað um endurgreiðslur frá Sjúkratryggingum Íslands vegna tannviðgerða hjá börnum og öryrkjum. Fréttastofan hafði lagst í mikla prósentureikninga og sagt var að minnsta kosti tvisvar að endurgreiðslurnar ættu samkvæmt lögum eða nema 75% af kostnaði, en hefðu í veruleikanum verið langtum lægri eða allt niður í 40%. Inni í fréttina vantaði það meginatriði að endurgreiðslurnar ættu að nema 75% af kostnaði samkvæmt samningi Sjúkratrygginga og tannlækna. Það hefur aðra merkingu en að segja einungis að endurgreiðslurnar eigi að vera 75% af kostnaði. Fréttamenn þurfa stöðugt að vera á varðbergi gagnvart þeim sem veita þeim upplýsingar og hafa hagsmuna að gæta.
Hér er oft vikið að enskuslettum, ekki síst í auglýsingum. Lánafyrirtækið Kredia slettir ensku í heilum setningum. Það segir við okkur í sjónvarpsauglýsingu: Kredia proud sponsor of Hárið. Hversvegna talar þetta fyrirtæki ekki við okkur á íslensku ?
Molaskrifari átti erindi í Nóatún í Austurveri við Háaleitisbraut. Þar voru auglýst ferðagrill. Á auglýsingaspjaldinu stóð: Ferðagrill – foldable. Er verslunarstjórinn viss um að allir viðskiptavinir viti hvað enska orðið foldable þýðir? Það er notað um eitthvað sem hægt er að fella saman, taka í sundur og minnka. Subbuskapur og enn ein atlagan að tungunni.
Erlend fréttasyrpa í fréttum Stöðvar tvö (03.08.2011) var eiginlega ein samfelld amböguruna. Þar var talað um auðmannshverfi, en ekki auðmannahverfi, að fjárkúga föður hennar í stað þess að tala um að kúga fé af föður hennar og er þá aðeins fátt eitt talið. Í fullri vinsemd er hér sagt við stjórnendur fréttastofu Stöðvar tvö: Svona bögubósar eiga ekki að fá að koma nálægt hljóðnema.
Það var beitt og rétt athugasemd hjá Þórólfi Matthíassyni prófessor í fréttum Stöðvar tvö (03.08.2011) þegar hann sagði að daginn sem lokaðist fyrir innflutning á olíu til Íslands lokaðist einnig fyrir landbúnað á Íslandi. Samt halda forystumenn bændasamtakanna áfram að bulla um fæðuöryggi, sem stefnt yrði í hættu ef Ísland gerðist aðili að ESB.
Þegar ríkissjónvarpið býður okkur upp á tvær amerískar læknaþáttaraðir í beit eins og gert er á miðvikudagskvöldum (03.08.2011) er gott að geta róið á önnur mið.
8 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
06/08/2011 at 21:04 (UTC 0)
Já. Sannarlega.
Valbjörn Jónsson skrifar:
06/08/2011 at 17:37 (UTC 0)
Kærar þakkir fyrir fræðsluna. Greinilega bók sem vert væri að eignast.
Eiður skrifar:
06/08/2011 at 14:02 (UTC 0)
Í hinni ágætu handbók Jóns G. Friðjónssonar, sem heitir Mergur málsins segir svo á bls. 57 um orðtakið í (einni) beit: Líkingin er óljós, e.t.v. dregin af því þegar báti er beitt skáhallt upp í vindinn , þ.. þegar náð er ákvörðunarstað í einni beit án þess að breyta þurfi um stefnu. Þar er einnig fjallað um afbrigðið í rennu, — þrjá morgna í rennu.
Valbjörn Jónsson skrifar:
06/08/2011 at 13:25 (UTC 0)
Takk fyrir svarið. Og takk fyrir að sýna viðleitni til að bæta málfar. Ekki veitir af. Veistu nokkuð hvernig þetta orðatitæki er tilkomið?(að sýna eitthvað í beit).
Eiður skrifar:
05/08/2011 at 21:44 (UTC 0)
Já. Það segir a.m.k. íslensk orðabók.
Valbjörn Jónsson skrifar:
05/08/2011 at 18:33 (UTC 0)
Í beit? Er það góð íslenska?
Eiður skrifar:
05/08/2011 at 10:01 (UTC 0)
Góð hugmynd.
K skrifar:
05/08/2011 at 03:02 (UTC 0)
Ég hef gaman af að lesa pistlana þína. Ég hóf aftur nám síðastliðið haust þegar ég hafði árangurslaust reynt að finna vinnu í tæp 2 ár. Ég finn að ég er farin að ryðga í íslenskri málfræði. Ég bjó lengi í Þýskalandi og til þess að aðlagast betur fór ég á námskeið sem kallaðist Intensiv Grammar (ef ég man rétt). Þar fórum við í gegnum þýsku málfræðina sem ég hafði lært í menntaskóla á 6 vikum í kvöldskóla. Satt að segja finnst mér að ég þurfi á samskonar upprifjun á íslenskri málfræði að halda,
en ég ég finn ekki þannig námskeið hér. Ég vil námskeið þar sem kennari fer í gegnum málfræðireglur og ekkert þras.
Kveðja, K.