Hjá Þrótt var markahæstur, sagði íþróttafréttamaður Ríkisútvarps í sexfréttum ( 16.08.2011). Hjá Þrótti var markahæstur, hefði hann betur sagt.
Davíð sendi eftirfarandi af pressan.is (16.08.2011) : Allir dreyma, jafnvel þótt þeir muna ekki eftir draumunum þegar þeir vakna. Ekki gerðar miklar kröfur um að menn séu skrifandi þar á bæ! Alla dreymir þótt þeir muni draumana ekki hefði átt að segja þarna.
Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra segist hafa verið tjáð. Þannig var að orði komist í fréttum Stöðvar tvö (16.08.2011) Hér hefði verið rétt að segja: Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra segir að sér hafi verið tjáð….
… fór sem eldur um sinu, var sagt í fréttum Stöðvar tvö. Venja er að segja ef eitthvað breiðist hratt út , að það fari sem eldur í sinu. Fréttin um silfursigur handboltaliðsins fór sem eldur í sinu um landið.
Hlustandi sendi eftirfarandi: ,,Var að hlusta á fréttir Ríkissjónvarpsins. Þar greindi ung stúlka frá því, að kostnaður Reykjavíkurborgar hefði hækkað vegna þeirrar ákvörðunar að greiða leikskólakennurum aukagreiðslur vegna þess að þeir fengju engan sérstakan matartíma heldur yrðu að borða með börnunum. Umræddar aukagreiðslur nefndi stúlkan „neyslufé“. Síðan sagði hún að kostnaður borgarinnar vegna neyslufésins hefði numið um fimm hundruð milljónum króna. „Neyslufésins“ – hvílíkt átvagl sem hefur slíkt andlit? Fésið étur hundruði milljóna svo að segja í einum munnbita!
Yfirmenn ættu að kenna þessum fréttamanni a.m.k. barnaskólaíslensku.” Molaskrifari heyrði þetta líka líka.
Í tífréttum Ríkissjónvarps var sagt frá hitaveituframkvæmdum í Siglufirði. Sagt var að borað hefði verið fyrir nýrri holu. Var ekki bara boruð ný hola ? Þannig skildi Molaskrifari fréttina.
Umsjónarmaður Rásar tvö í Ríkisútvarpi (17.08.2011) talaði um skrímsli, tröll og aðrar vættir en leiðrétti sig svo og sagði aðrir vættir. Hið fyrra var rétt. Hið síðara rangt.
Í fréttum er oft talað um stærð jarðskjálfta. Molaskrifari er á því að eðlilegra sé að tala styrk jarðskjálfta ekki stærð. Öflugur jarðskjálfti, snarpur jarðskjálfti, ekki stór jarðskjálfti.
Eggert benti á eftirfarandi frétt á visir.is : http://visir.is/nasa-birtir-gervihnattamynd-af-islandi-bakad-i-sol-og-blidu/article/2011110819180
Gervihnattamynd af Íslandi bakað í sól og blíðu. Það var og.
Á fáeinum dögum hefur Molaskrifari tvisvar sinnum heyrt tekið svo til orða í fréttum að kostnaður eða verð hafi risið. Eru verðhækkanir þá verðris? Kostnaður eykst, verð hækkar. Undarleg meinloka.
11 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
18/08/2011 at 16:00 (UTC 0)
Rétt, rétt.
Eiður skrifar:
18/08/2011 at 16:00 (UTC 0)
Kærar þakkir, Sigurður G. Ég ert sem sé ekki nægilega vel að mér í fræðunum.
Eiður skrifar:
18/08/2011 at 15:59 (UTC 0)
Þakka góðar og málefnalegar athugasemdir.
Eiður skrifar:
18/08/2011 at 15:57 (UTC 0)
Þakka ábendinguna. Þeim sem sendi þetta hefur þá misheyrst.
Hildigunnur skrifar:
18/08/2011 at 13:47 (UTC 0)
Mín máltilfinning segir líka að rétt sé að tala um hundruð eða hundruðir milljóna, ekki hundruði. Nema þið viljið hafa milljónir í karlkyni. Milljónarnir…
Hildigunnur skrifar:
18/08/2011 at 13:44 (UTC 0)
Fréttamaður Ríkisútvarpsins talaði um neysluhlé, ekki neyslufé þannig að þetta var alveg hárrétt hjá henni.
Jónas Sen skrifar:
18/08/2011 at 13:24 (UTC 0)
Takk fyrir skemmtilega pistla í gegnum tíðina.
Í sambandi við barnaskólaíslensku ungu stúlkunnar sem hér er til umræðu:
Það var ekki talað um neyslufé heldur neysluhlé.
Hér er smá um neysluhlé úr ónefndum kjarasamningi:
„Sé unnin yfirvinna, skulu neysluhlé vera sem hér segir: kl. 19.00-20.00, kl.
24.00-00.20, kl. 03.30-04.00, kl. 06.45-07.00. Neysluhlé á frídögum skv. gr.
2.1.4.1 skal vera 1 klst. á tímanum frá 11.30-13.30, en að öðru leyti skulu
neysluhlé í yfirvinnu á frídögum, á tímabilinu frá kl. 08.00-17.00, vera þau
sömu og í dagvinnu og teljast til vinnutímans. Neysluhlé í yfirvinnu má taka
með öðrum hætti með samkomulagi á vinnustað. Þessi ákvæði gilda ekki, ef
ákvörðun um yfirvinnu er einungis í höndum starfsmanns.“
Kristinn R. Ólafsson skrifar:
18/08/2011 at 12:22 (UTC 0)
Fésið étur hundruði milljóna svo að segja í einum munnbita!
-> étur HUNDRUÐ milljóna…
hundrað beygist einsog hérað…
hundruð (ekki hundruðir)
hundruð (ekki hundruði)
hundruðum
hundraða (ekki hundruða)
Sigurður G. Tómasson skrifar:
18/08/2011 at 11:31 (UTC 0)
Sæll Eiður! Það er rétt að tala um stærð jarðskjálfta, þegar átt er við Richter-kvarðann, sem, samkvæmt kennslubókunum leggur mat á stærð skjálfta. Miðað er við útslag á tilteknum mæli við staðalaðstæður í 100 km fjarlægð frá upptökum. Þessi kvarði er notaður af öllum vísindastofnunum og oftast vísað til hans í fréttum. Á hinn bóginn er til annar kvarði, sjaldan notaður núorðið, sem metur áhrif eða styrk skjálfta og er nú kallaður hinn endurbætti kvarði Mercallis.
Þorvaldur Sigurðsson skrifar:
18/08/2011 at 10:52 (UTC 0)
„Umsjónarmaður Rásar tvö í Ríkisútvarpi (17.08.2011) talaði um skrímsli, tröll og aðrar vættir en leiðrétti sig svo og sagði aðrir vættir. Hið fyrra var rétt. Hið síðara rangt.“
Rétt og rangt fer, eins og þér er kunnugt, eftir því hvað telst „viðurkennt“ og „viðeigandi“ í hinum margvíslegu málsamfélögum. Gildir þá hin margumrædda máltilfinning einstaklinganna og þarf ekki að vera sú sama hvarvetna um landið. Ég ólst upp við í Skagafirði að vættir væru karlkyns og svo hafa víst fleiri gert og jafnvel víðar um landið; a.m.k. segir hjá félaga Merði (í útgáfunni frá 2005): Vættur -ar, -ir KVK -s/ -ar, -ir KK (karlkyn eldri mynd, talin betri)
Svo mörg voru þau orð. Og ekki ætla ég mér þá dul að deila við Mörð um meint réttmæti málfars.
Sveinn skrifar:
18/08/2011 at 10:02 (UTC 0)
Sæll Eiður og takk fyrir pistilinn. Ástæðan fyrir því að talað er um stærð frekar en styrk jarðskjálfta er sú að MMS-skalinn sem flestir jarðeðlisfræðingar nota nú í stað Ricther-skalans mælir orkulosunina sem verður í skjálftanum. Þótt nokkur fylgni sé á milli orkulosunar og eyðileggingarmáttar (styrks) jarðskjálftans er ekki alger fylgni þarna á milli. Þannig getur tiltölulega lítill skjálfti sem verður á litlu dýpi valdið mun meira tjóni en stór skjálfti sem verður djúpt í jarðskorpunni. Því er réttara að tala um stærð heldur en styrk skjálfta þegar MMS eða Richter-skalarnir eru lagðir matinu til grundvallar.