«

»

Molar um málfar og miðla 701

Ábúðarmikill fréttamaður Ríkissjónvarps stóð á tröppum kínverska sendiráðsins í Reykjavík (28.08.2011) og sagði þjóðinni að kínverski fjárfestirinn Huang Nubo væri heiðursfélagi í Kommúnistaflokki Kína. Það er bull.

Þökkum veitta tillitsemi, stendur á skilti við veginn skammt frá Egilsstöðum þar sem framkvæmdir stóðu yfir. Ekki er málvenja að tala um að veita tillitssemi, heldur sýna tillitssemi, en í því orði eru tvö ess. Betur hefði farið á því ef á skiltinu hefði staðið: Þökkum tillitssemina.

Það er til fyrirmyndar hjá Stöð tvö að birta borgaheiti á veðurkortum bæði í Evrópu og Norður-Ameríku. Ríkissjónvarpið ætti að gera þetta líka. Það getur ekki verið tæknilega erfitt.

Molavin sendi eftirfarandi: „Öðlaðist nirvana við bjúguát“ Svo segir i millifyrirsögn DV fréttar (29.08.2011) um mataræði þingmanna. Það verður æ ljósara að nýjustu árgangar fjölmiðlafólks hafa ekki lært meðferð móðurmálsins. Bjúgnakrækir er þeim væntanlega ókunnugur. Þekkja ekki íslenzku jólasveinana, aðeins amerísku kókakóla-sveinana.

Fyrirsögn á mbl.is (29.08.2011: Sprengdi sig inn í mosku í Írak. „Samkvæmt fyrirsögn var þetta innbrot, sprengdi sig inn í mosku. Samkvæmt fréttinni sprengdi hann sig inni í mosku. Nokkur munur.“ Molaskrifari þakkar þeim sem sendi.

Jóna sendi eftirfarandi (29.07.2011): ,,Mig langar að vekja athygli þína á stafsetningarvillu sem fór mikið í taugarnar á mér um daginn þegar málefni Landakotsskóla voru til umræðu og aftur nú þegar búið er að skipa nefnd sem á að kanna hvað hæft sé i sögum um illa meðferð á nemendum skólans á árum áður. Vísir birtir frétt um þetta í dag og um leið tengil í eldri fréttir. Þar á meðal í tilkynningu frá starfsmönnum skólans þar sem talað er um „misyndisverk“ í stað misindisverka. Ætli þeir haldi nokkuð að þessi meintu óhæfuverk séu mis-yndisleg-verk?” Molaskrifari þakkar Jónu sendinguna.

Hér kemur sending frá Hreiðari (30.08.2011): ,,Þáttastjórnandi á Bylgjunni tók svona til orða í morgun: „Súkkulaðigrísir eru 36% ólíklegri til að þróa með sér hjartasjúkdóma en þeir sem gera það ekki“. 🙂
Þá er þreytandi að heyra íþróttafréttamenn 365 miðla vera stöðugt að tala um að menn „grýti boltanum….“. Molaskrifari þakkar Hreiðari sendinguna.

Landafræðikunnátta fréttamanna virðist á stundum af skornum skammti. Í sexfréttum Ríkisútvarps (30.08.2011) heyrði Molaskrifari ekki betur en fréttamaður talaði um Grímsstaði í Fjöllum. Grímsstaðir eru á Fjöllum, Hólsfjöllum. Í sama fréttatíma var sagt að síðustu misseri hefði verið talað um skort á lambakjöti og kjúklingi. Skilst, en ekki vel að orði komist. Þetta hefur reyndar verið nefnt hér áður.

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Viðar Freyr Guðmundsson skrifar:

    Því má við þetta bæta að menn ‘öðlast’ ekki nirvana á þennan hátt sem líklega er átt við. Nirvana þýðir bókstaflega ‘að slökkva á’ eins og þegar loginn slokknar á kerti. Nirvana er ekki himnaríki eins og menn skilja það í vestrænni menningu heldur endirinn á lífinu, endirinn á þjáningu, það er í raun ekkert. Þannig að ef menn öðlast nirvana við bjúguát þá eru menn væntanlega steindauðir, allt svart, búið, endir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>