Það er eiginlega meinfyndið að Morgunblaðið skuli skrifa leiðara um sögufölsun (03.09.2011). Morgunblaðið neitar horfast í augu við þær staðreyndir að ríkisstjórnin hefur náð miklum og merkilegum árangri í efnahagsmálum og ríkisfjármálum. Morgunblaðið kýs að halda áfram að ljúga að lesendum sínum. Þetta með sögufölsunina minnir á að undir lok liðinnar aldar réðu Sjálfstæðismenn því að Hannes Hólmsteinn Gissurarson, sem þá var reyndar ódæmdur fyrir ritstuld, var fenginn til að gera röð af þáttum fyrir Ríkissjónvarpið um sögu tuttugustu aldar. Þar var sagan skábeygð að sjónarmiðum Sjálfstæðisflokksins. Það voru undarlegir þættir. Líklega bíður flokkurinn þess nú að komast í þá aðstöðu að hægt sé að ráða prófessorinn til að gera sögunni fyrstu áratugi þessarar aldar sömu skil. Þetta er alveg eins og í gamla sovétinu. Nema hvað hér eru það öfgamenn á hægri væng sem freista þess að breyta sögunni eftir á og eru haldnir staðreyndablindu .
Í fréttum Stöðvar tvö ((02.09.2011) talaði fréttamaður skýrt og greinilega um að passa upp á þaug !
Lagafrumvörp eru ekki felld á nefndafundum eins og sagt var í Ríkisjónvarpi (02.09.2011). Frumvörp eru felld við atkvæðagreiðslu í þingsal. Þá var það var dálítið einkennilegt að heyra fréttamann Ríkissjónvarps tortryggja svar Þórunnar Sveinbjarnardóttur að hún léti af þingmennsku til að hefja háskóalnám. Spurt var hvort henni hefði ekki verið lofað einhverju fyrir að hætta á þingi!
Molavin er drjúgur við að senda Molum ábendingar um eitt og annað í málfari fjölmiðlamanna sem betur mætti fara. Hann sendi (03.09.2011): „Nauðsynlegt að eyða í menntakerfið“ segir í fyrirsögn á visir.is í dag. Það eru mörg orð til um það að fara með fé. Eyðsla er jafnan tengd óþarfa eða því að sólunda fé án þess að nokkuð verði eftir. Vonandi hefur hinn útlendi sérfræðingur í menntamálum, sem visir.is vitnar til varla átt við það. Öllu líklegra er að hann hafi talið rétt af Íslendingum að verja meira fé til menntamála.
Önnur vísisfrétt hefst á þessum orðum: „Fjölmörgum norskum stofnunum, sem staðsettar eru utan Noregs, hefur borist hótanir eftir ódæðið í Útey.“ Hér er enn orðbólga á ferð: „Fjölmörgum norskum stofnunum utanlands hafa borist (ekki hefur borist) hótanir. Hótanir hefur ekki borist. Þær hafa borist. Óvandvirknin er á ábyrgð ritstjóra og ábyrgðarmanna fjölmiðla.”
Í Bændablaðinu (01.09.2011) segir frá lífrænum svínum. Það var og. Fróðlegt væri að sjá ólífræn svín.
…og á meðan eru karlmenn þarna úti, sem … Svona var tekið til orða í fréttum Stöðvar tvö (03.09.2011). Þetta er ömurlegt enskuskotið orðalag. Sama gildir um það þegar í þessum sama fréttatíma var talað um fljótasta mann jarðar. Sömuleiðis er undarlegt að hlusta á að leikið sé fyrir framan sjö hundruð áhorfendur , eins og sagt var í Ríkissjónvarpinu (03.09.2011). Betra væri að segja: … í viðurvist sjö hundruð áhorfenda.
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Egill skrifar:
05/09/2011 at 14:49 (UTC 0)
… eða jafnvel einfaldast að leika fyrir sjöhundruð áhorfendur.