«

»

Molar um málfar og miðla 709

Undir lok næturútvarps á Rás eitt snemma að morgni (07.09.2011) var kynnt tónverk með þeim orðum að einleikari væri Gulda Friedrich. Þetta er eins og að segja að verk sé eftir Liszt Franz. Morgunfrúin sem svo kallar sig á Rás eitt leiðrétti þetta og talaði réttilega um Friedrich Gulda (sem var austurrískur píanisti) eftir að flutningi verksins lauk. Ríkisútvarpið á að gera kröfur til þeirra sem kynna tónlist á öldum ljósvakans.

Úr mbl.is (07.09.2011) Algeng villa: Þota nepalska flugfélagsins Nepal Airlines var meinað að fara í loftið í gærkvöldi á flugvellinum í Hong Kong vegna músagangs í flugstjórnarklefanum. Þota var ekki meinað, — þotu var meinað. Eða: Þota fékk ekki að fara frá flugvelllinum….
Þorkell Guðbrands sendi eftirfarandi (07.09.2011): Kaninn er að leita af frábærum dömum til að gleðja og ætla að verðlauna Dömu vikunnar í þættinum Kara Frétta allan föstudaga í september. Sendu okkur tölvupóst á kaninn@kaninn og segðu okkur frá þinni dömu og afhverju hún ætti skilið að fá 10 þús kr Gjafarbréf frá Snyrtivörubúðinni Zebra Cosmetique Laugarvegi

Þorkell segir: ,, Ég hef áður haft orð á því að fólk ruglar saman „af“ og „að“ og notar yfirleitt rangt. Þetta gengur um á fésbókinni nú um stundir. Einnig kemur þarna tvisvar sinnum fyrir í ólíkum, samsettum orðum að eignarfalls „r“i er skotið inn þar sem það á alls ekki heima. Þetta er eiginlega táknrænt fyrir þá íslensku, sem notuð er nú til dags. Það er hætt að kenna íslensku í Kennaraháskólanum og virtustu málfræðingar segja nú, að það sé ekkert til sem heitir „rétt mál“, við verðum að gera okkur ljóst að málið sé að þróast”. Þakka þér sendinguna, Þorkell. Auðvitað þróast málið, en það er ekki sama hvernig það þróast. Ef það þróast algjörlega aðhaldslaust verður það að óskapnaði og fólk hættir að geta lesið og skilið bókmenntir liðinnar aldar og liðinna alda. Fyrir þá sem ekki vita þá mun Kaninn vera útvarpsstöð,
Segir forseta brigsla ráðmenn um landráð, segir í fyrirsögn á visir.is (07.09.2011). Sá sem þetta skrifar kann ekki að nota sögnina að brigsla, – að núa einhverjum einhverju um nasir. Einhverjum er brigslað um eitthvað.
Hjalti þakkar fyrir þessa pistla og segir (07.09.2011): ,,Ég heyrði þessa frétt á Bylgjunni (Sjónvarpsfréttir Stöðvar tvö) í gærkvöldi og þótti notkun sagnarinnar að ´árétta´ eitthvað undarleg, eins og reyndar öll fyrsta málsgreinin”.
http://www.visir.is/hvetja-foreldra-til-thess-ad-fraeda-bornin—ekki-hraeda/article/2011110909417 – Rétt er það. Þetta er ekki eins það ætti að vera.
Egill sendi eftirfarandi (07.09.2011): „Velferðarþjónustu er sinnt af mörgum samtökum og eitt þeirra er Samhjálp,“ var sagt í Síðdegisútvarpi Rásar 2 í dag, miðvikudag. Það er og – Samhjálp er samtak. Betra hefði verið að segja: „… ein þeirra …“ Þau samtökin, ekki satt?

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Góð ábending.

  2. Eiður skrifar:

    Of oft ráða rugludallar ríkjum á´Rás tvö.

  3. Ari skrifar:

    Starfsmaður í síðdegisútvarpi Rásar 2 talaði í dag um að kannski fengjum við „indverskt sumar“ þegar hann hefði átt að segja „indjána-sumar“. Lái honum svo sem ekki að misskilja þetta enda hægt að misskilja orðið „indian“ á báða vegu
    http://en.wikipedia.org/wiki/Indian_summer#The_etymology_of_.27Indian_summer.27

  4. Emil Ragnar Hjartarson skrifar:

    Enn „aukast“ ferðamenn. Mikil „aukning“ á ferðamönnum eftir að ný Hvítárbrú var tekin í notkun sagði viðmælandi á Stöð 2 í kvöld.
    Það á að setja lögbann á svona kjaftæði.Hvernig aukast ferðamenn ? Fitna þeir –eða hvað ?

  5. Jón skrifar:

    Það verður að banna Ungverjum að nota sína nafnahefð, hún ruglar starfsmenn RÚV.
    Úr Wikipediu
    The native form of this personal name is Bartók Béla Viktor János. This article uses the Western name order.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>